Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda, segir það alveg ljóst að lífeyrissjóðir „spili saman“ og reyni að koma sínu fólki inn í stjórnir skráðra félaga. Honum líst illa á að sjóðirnir beiti sér og láti að sér kveða í þeim félögum sem þeir eiga hlut í.
Hann segist þó ekki vera á móti því að lífeyrissjóðir séu hluthafar í HB Granda. „En ef þeir ætla að ráðskast með félagið, þá held ég að maður fari nú bara að taka til fótanna sjálfur,“ sagði hann á morgunverðarfundi um samvistir lífeyrissjóða og almennra fjárfesta síðasta fimmtudag. Viðskiptaráð Íslands, Kauphöllin og Samtök atvinnulífsins stóðu að fundinum.
Eins og kunnugt er voru átök um síðasta aðalfund HB Granda þegar Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem á 12% hlut í félaginu, fór fram á margfeldiskosningu við stjórnarkjörið. Var kjöri frestað á síðustu stundu eftir að allir stjórnarmenn félagsins drógu framboð sín til baka.
Á framhaldsaðalfundi var Anna G. Sverrisdóttir kjörin ný inn í stjórn félagsins en hún var studd af Lífeyrissjóði verslunarmanna. Í kjörinu felldi hún Þórð Sverrisson, sem hefur átt sæti í stjórn HB Granda frá árinu 2014.
Það hafa staðið átök milli kjölfestufjárfesta og lífeyrissjóðsins um skipan stjórnarinnar allt frá því að sjóðurinn keypti hlut í félaginu við skráningu þess á markað. Kristján hefur ítrekað sagt að lífeyrissjóðir eigi ekki að skipta sér af því hvernig stjórn HB Granda sé mönnuð. Það skýrist af þeirri ástæðu að fyrir sé í félaginu kjölfestufjárfestir með ríflega 40% hlutafjár.
Frétt mbl.is: Eiga ekki að sitja á hliðarlínunni
Á fundinum nefndi Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, að í ljósi vaxandi vægis lífeyrissjóða á íslenskum hlutabréfamarkaði – en þar eru þeir orðnir afar fyrirferðamiklir – væri óhjákvæmilegt að þeir beittu sér af fullu afli og með sams konar hætti og aðrir fjárfestar til þess að vernda hagsmuni sína í þeim félögum sem þeir ættu hlut í.
Kristján sagðist ekki vera sammála því. „Þá held ég að ekki mörg félög fari inn í Kauphöllina. Ekki dytti mér í hug að fara með félag, þar sem ég væri kjölfestufjárfestir, inn í Kauphöllina og láta þá hirða það af þér. Nema þú hafir áhuga á því að láta lífeyrissjóðina hirða það af þér. Það er hin leiðin,“ sagði Kristján.
Hann bætti við að stundum svifust lífeyrissjóðirnir einskis. Margfeldiskosningar, sem væru eingöngu til hér á Íslandi, væru til dæmis ferlegar. Sá sem fer fram á margfeldiskosningu þarf að eiga að minnsta kosti 10% hlut í félaginu ef hluthafar þess eru fleiri en 200, en 20% ef þeir eru færri en 200. Kristján sagði að fulltrúi Lífeyrissjóðs verslunarmanna hefði sagt honum að ef sjóðurinn ætti yfir 10% hlut, þá færi hann alltaf fram á margfeldiskosningu. Það væri hans prinsipp. Það væri ekki flóknara en það.
„Það vantar inn í umræðuna að hlutafélög og einstaklingar sem eru að fjárfesta í félögum eru háðir ýmsu öðru. Hér tala menn um „lífeyrissjóðinn“ og „lífeyrissjóðina“ og það er ómögulegt að átta sig á því hvort menn eru að tala í eintölu eða fleirtölu. Það skiptir svakalega miklu máli hvort þú sért að tala í eintölu eða fleirtölu. Ef til dæmis hlutafélög fjárfestir í öðru félagi, þá getur það fjárfest upp að vissu marki, en ef það fer yfir ákveðna prósentu, þá verður það að gjöra svo vel og gera yfirtökutilboð.
Það er alveg klárt mál í mínum huga að lífeyrissjóðirnir spila þetta saman þegar kemur að hluthafafundum og kjöri í stjórnir. Þannig að þeir eru ekki háðir neinni yfirtökuskyldu. Þess vegna held ég að það þyrfti að koma því inn í löggjöfina að sjóðirnir þyrftu að tilkynna það ef þeir eru að spila saman,“ sagði Kristján.
Hann bætti því jafnframt við að á sama tíma og lífeyrissjóðirnir hafi sagst ætla að skipta sér af félögum hér á Íslandi, þá kæmu þeir ekki nálægt félögum sem þeir fjárfestu í erlendis. „Nú er sótt stíft að því að þeir fái að fjárfesta erlendis. Ætla þeir þá að láta þau félög algjörlega eiga sig?“ spurði Kristján.
Páll svaraði gagnrýni Kristjáns og sagði að lífeyrissjóðum hefði verið boðin ákveðin bréf til kaups sem fylgdu ákveðin réttindi. Það ætti að vera almenna reglan að þeir beittu sér í samræmi við þau réttindi sem þeir hafa. Þar með væri þó ekki sagt að aðrar lausnir væru ekki til. Einn aðili réði til að mynda meirihluta atkvæðamagns í fimmtungi skráðra félaga á Norðurlöndunum. „Og þar gengur þetta ágætlega, kannski vegna þess að þar ríkir meira traust milli fjárfesta,“ sagði Páll.
Hann sagði að ef kjölfestufjárfestar ætluðu að bjóða lífeyrissjóðunum að koma í samstarf en gera það að skilyrði að þeir beittu sér ekki, þá væri hreinlegast að bjóða þeim til dæmis B-bréf með engan atkvæðisrétt og sjá hvort þeir vildu kaupa. „Það finnst mér alveg koma til greina. Mér finnst afleitt að selja þeim vöru og ætla þeim svo að nýta hana ekki eins og þeirra réttur stendur til,“ sagði Páll.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tók einnig til máls og sagði að mönnum hætti til í umræðunni að tala um lífeyrissjóðina saman sem eitt skrímsli. Lífeyrissjóðirnir væru hins vegar fjölmargir og nálgun þeirra í fjárfestingum ólík. Gegnsæið skipti hins vegar máli. Þess vegna væri jákvætt að sjóðirnir birtu opinberlega hvernig þeir greiða atkvæði á aðalfundum.
„Það er einfaldast og skýrast og þannig sést það mjög greinilega hvernig þeir hátta sínum málum hver um sig. Það ýtir örugglega enn undir sjálfstæði þeirra sem er mjög mikilvægt,“ sagði hann.