Skortur er á meira en 80% af öllum helstu nauðsynjavörum í Venesúela, þar á meðal matvælum og lyfjum, samkvæmt nýrri könnun sem fyrirtækið Datanalisis hefur gert.
Skorturinn er aðeins meiri í verslunum en á heimilum, að sögn Luis Vicente Leon, framkvæmdastjóra Datanalisis.
Efnahagur landsins er í molum og hefur skorturinn á lífsnauðsynlegum vörum ekki verið eins mikill og alvarlegur í mörg ár.
„Hnignunin hefur aukist með veldisvexti undanfarna tvo mánuði,“ sagði Leon.
Fyrirtækið býst við því að verðbólga verði 450% í ár og að kaupmáttur muni verða um 40 prósentum minni en í fyrra. Samkvæmt nýjustu opinberu tölunum, frá því í desember 2015, var verðbólga 180,9%.
Mikill skortur á nauðsynjavörum og þrálát verðbólga hefur leitt til þess að í það minnsta tveir af hverjum þremur íbúum landsins verða sér úti um slíkar vörur á svörtum markaði.
Um 86% Venesúelabúa kenna vinstristjórn Nicolas Maduros, forseta landsins, um stöðuna.
Maduro hefur hins vegar haldið því fram að voldug fyrirtæki séu, með hjálp Bandaríkjastjórnar, í efnahagslegu stríði við landið. Hann telur jafnframt að ástandið megi að hluta rekja til lágs olíuverðs, en olía er helsta útflutningsvara Venesúela.
Vel yfir 70% landsmanna telja hins vegar að ásakanir forsetans séu úr lausu lofti gripnar, að því er segir í frétt AFP.