Fjólubláa málningin þyngir ekki

Vélar WOW air hafa verið að koma fjólubláar af færibandinu.
Vélar WOW air hafa verið að koma fjólubláar af færibandinu. Ljósmynd/WOW

Flestar flugvélar eru hvítar og er það ekki af ástæðulausu. Aukalag af málningu getur vegið um 250 kg og verður þar af leiðandi dýrara að fljúga vélinni sökum meiri eldsneytiskostnaðar. Nýjar vélar WOW air eru fjólubláar að lit en félagið segir þær pantaðar þannig frá verksmiðjunni.

Líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan eru flugvélar silfurlitaðar er þær koma úr verksmiðjunni. Vélarnar eru síðan málaðar og getur verið hagkvæmt að hafa þær hvítar þar sem margar vélar eru t.d. leigðar og dýrt getur verið að mála þær fyrir félagaskipti. Óhagkvæmt getur verið að þurfa sífellt að bæta nýju lagi af málningu á vélina.

Allar vélar WOW air, utan einnar, eru fjólubláar, í einkennislitum félagsins. Aðspurð hvort aukinn kostnaður sé fólginn í þessu bendir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, á að flugvélaflotinn sé nýr og hafa vélarnar þar með komið fjólubláar frá verksmiðjunni. Ekki er því aukalag af málningu á vélunum og skapar það ekki meiri þyngsli. Vélarnar eru einfaldlega silfurlitaðar undir fjólubláu málningunni.

Fjórar vélar í eigu WOW

Alls eru í dag ellefu vélar í flugflota WOW air og er meðalaldur þeirra 2,5 ár. Þar af rekur félagið í dag sex Airbus A321 vélar. Þær nefnast TF-MOM, TF-DAD, TF-SON, TF-KID, TF-GMA og TF-GPA.

Fjórar þeirra, TF-MOM, TF-DAD, TF-KID og TF-SON eru alfarið í eigu WOW air en þær eru árgerð 2013 og 2014. TF-SON og TF-KID bættust við flota WOW air í febrúar og mars á þessu ári.

Samkvæmt þessu eru sjö af vélum WOW leigðar en Svanhvít segir þær einnig hafa komið fjólubláar frá verksmiðjunni.

Flestar vélar eru hvítar líkt og hjá Icelandair.
Flestar vélar eru hvítar líkt og hjá Icelandair.

Nokkrar vélar á leiðinni

Yngstu vélar flotans eru TF-GMA og TF-GPA, eða amma og afi, sem fengnar voru glænýjar af færibandinu hjá Airbus í vor, árgerð 2016. TF-GMA er þegar komin til landsins en TF-GPA bætist við flotann í júní.

Í dag er WOW air að sýna nýjustu Airbus A330-300-breiðþotu félagsins. Hún mun fá skráninguna TF-WOW þegar hún verður skráð á flugrekstrarleyfi félagsins í haust. Vélin er árgerð 2015, glæný, og og er með sæti fyrir 350 manns.

Von er á annarri A330-vél í haust og mun hún fá heitið TF-LUV. Hún er einnig árgerð 2015 og er með sæti fyrir 350 farþega

TF-GAY er síðan þriðja A330-vélin sem WOW air fær til sín. Hún er nú þegar skráð á flugrekstrarleyfi WOW air og er árgerð 2010. Sú vél mun hafa sæti fyrir 342 farþega.

Airbus A320-200-vélar WOW air eru tvær, TF-BRO og TF-SIS. Þær hafa verið á flugrekstrarleyfi WOW air frá september 2015. Báðar vélarnar eru árgerð 2010 og hafa sæti fyrir 174 farþega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK