Frá Kína í framkvæmdastjórastól á Íslandi

Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi.
Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP stefnir á að efla starfsemi sína hér á landi á næstunni en meðal annars verður horft til þess að styrkja EVE online leikinn með því að nýta þá þekkingu og tækni sem hefur byggst upp hjá fyrirtækinu undanfarin 13 ár síðan leikurinn kom út. Þetta segir Stefanía G. Halldórsdóttir, nýr framkvæmdastjóri fyrirtækisins á Íslandi. Er um nýja stöðu að ræða, en forstjóri félagsins, Hilmar Veigar Pétursson, mun stýra uppbyggingu nýrrar skrifstofu CCP í London.

Stefanía hefur undanfarin ár leitt þróunarstarf fyrirtækisins í Shanghai í Kína. Í samtali við mbl.is segir hún að sú reynsla muni nýtast henni vel í nýju starfi. Þannig þróist markaðurinn mjög hratt í Kína og læra þurfi að grípa tækifærin þegar þau gefist.

Úti í Kína fór Stefanía einnig í gegnum allt ferlið við að búa til leik í sýndarveruleika, en leikurinn Gunjack var þróaður frá grunni þar og gefinn út. Segir hún að þetta hafi náð frá grunnhugmyndarvinnu, yfir sköpunarferlið og svo útgáfu í samvinnu við Samsung. „Það gefur manni mikið „búst“ og ég sé fyrir mér að við getum farið í gegnum slíkt ferli aftur á þessari skrifstofu og hlakka mikið til þess,“ segir Stefanía.

Ljósmynd úr tölvuleiknum Gunjack frá CCP.
Ljósmynd úr tölvuleiknum Gunjack frá CCP.

Aðspurð um hvort einhver slík þróun sé í gangi núna og hvernig leikur það yrði segir hún að fyrirtækið sé alltaf að skoða hugmyndir og prófa sig áfram, en það sé of snemmt að segja til um hvernig leikur það verði næst sem fyrirtækið muni ráðast í og í hvernig tækni það verði. Hún segir allt eins líklegt að það verði í sýndarveruleikatækni sem annarri tækni.

CCP er í dag með skrifstofur á Íslandi, Shanghai í Kína, Atlanta í Bandaríkjunum og Newcastle í Bretlandi til viðbótar við nýju skrifstofuna í London. Stefanía segir að skipulagið hafi verið þannig á skrifstofunum utan Íslands hafi verið sérstakir framkvæmdastjórar. Nú þegar Hilmar flytji til London verði sama fyrirkomulag fyrir Ísland.

Meðal stórra verkefna framundan er uppbygging og flutningur fyrirtækisins í nýjar höfuðstöðvar sem á að reisa í Vatnsmýrinni. Segir Stefanía að horft sé til þess að þær verði teknar í notkun árið 2018. Hún segir hluti af því verkefni verði að komast nær og vinna náið með háskólasamfélaginu.

Nýjar höfuðstöðvar CCP munu rísa þar sem bláleiti reiturinn er. …
Nýjar höfuðstöðvar CCP munu rísa þar sem bláleiti reiturinn er. Stefanía segir að gert sé ráð fyrir að flutt verði inn árið 2018.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK