Þaksæti á veitingastað við Arnarnes

Gert er ráð fyrir að húsnæðið nýtist vel í góðu …
Gert er ráð fyrir að húsnæðið nýtist vel í góðu veðri. Teikning/Zeppelin – arkitektar

Bæjarráð Garðabæjar hefur samþykkt að gengið verði til samninga við félagið Arnarvog ehf. um rekstur og byggingu á veitingastað við Arnarnesvoginn. Gunnari Einarssyni bæjarstjóra líst vel á áformin. 

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í morgun með fjórum atkvæðum að leggja til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við óstofnaða hlutafélagið Arnarvog ehf. um úthlutun lóðar fyrir veitingastað við Arnarnesvog. Fyrirvari er þó um að við undirskrift samnings hafi félagið formlega verið stofnað og stofnefnahagsreikningur lagður fram staðfestur af löggiltum endurskoðanda.

Mikil uppbygging á svæðinu

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir að málið verði lagt fyrir bæjarstjórn á fimmtudaginn. Honum líst vel á tillöguna og segir hana vera metnaðarfulla, líkt og tillögur tveggja annarra, sem einnig sóttust eftir lóðinni. „Mér líst mjög vel á bygginguna sem fellur vel inn í umhverfið og gefur okkur ýmsa möguleika. Ég bara fagna því fyrst og fremst að draumurinn um veitingahús við Arnarnesvoginn sé að verða að veruleika,“ segir Gunnar og bætir við að mikil umferð gangandi og hjólandi vegfarenda liggi um svæðið.

Líkt og áður segir verður veitingastaðurinn við Arnarnesvoginn, ekki langt frá Sjálandsskóla, en nær Reykjavík. Gunnar segir staðsetninguna afar góða í ljósi þess að mikil uppbygging á svæðinu standi yfir. Verið sé að byggja 25 minni raðhús í göngufæri auk þess sem Sjálandshverfið sé að klárast. Þá sé einnig verið að klára samkeppni um Lyngássvæðið í nágrenninu og er gert ráð fyrir töluverðu byggingarmagni á því svæði. 

Veitingastaðurinn verður stutt frá Sjálandsskóla.
Veitingastaðurinn verður stutt frá Sjálandsskóla. Teikning/Zeppelin – arkitektar

Vel tekið í veitingastaði í Garðabæ

Margt hefur breyst í Garðabæ á stuttum tíma en ekki er langt síðan enginn veitingastaður með vínveitingaleyfi var í bænum. Í dag er slíkur staður í IKEA auk þess sem Mathúsið var nýlega opnað í miðbæ Garðabæjar. Sá þriðji bætist síðan bráðlega við í Arnarnesvoginn. „Það virðist vera fullt alla daga á Mathúsinu,“ segir Gunnar og bætir við að bæjarbúar og aðrir virðist þar með taka hverfisstöðum mjög vel. „Fólk virðist ætla að halda í þetta með því að sækja þessa staði,“ segir hann.

Í rökstuðningi umsækjenda fyrir veitingastaðnum, sem lagður var fyrir bæjarráð, segir að gert sé ráð fyrir að framkvæmdir verði kláraðar á átján mánuðum og gera má því ráð fyrir opnun í lok árs 2017 gangi það eftir. „Þetta er tímaramminn,“ segir Gunnar. „Stundum eru menn að byggja þetta á jafnvel skemmri tíma og það kemur þá bara í ljós. En við viljum klára þetta sem fyrst.“

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Þakverönd fyrir góða veðrið

Í rökstuðningnum segir að áhersla verði lögð á einfaldan matseðil með sérvöldu hráefni með það að markmiði að bjóða fjölbreytta og holla rétti á viðráðanlegu verði.

Þeir sem standa umsókninni að baki hafa skuldbundið sig til að leggja Arnarvogi ehf. til fjármagn, í formi hlutafjár og annarra eigin framlaga, sem nemur að lágmarki um 64 prósentum af áætluðum framkvæmdakostnaði. 

Með umsókninni var lögð fram ítarleg áætlun um rekstur veitingastaðarins. Tekjuáætlunin er byggð á mati á aðsókn að veitingastaðnum og útleigu á veisluaðstöðu. „Í heildina virðist áætlunin vera varfærin en sýnir að reksturinn getur vel staðið undir rekstrar- og fjárfestingakostnaði,“ segir í rökstuðningi.

Innra skipulag er hugsað þannig að húsnæðið nýtist bæði sem veislusalur og kaffihús og eru einingarnar aðskildar. Í teikningum er einnig gert ráð fyrir þakverönd og breiðum stiga ásamt sviði. Ætti fólk þannig að geta notið staðarins þegar vel viðrað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka