Société Générale hefur verið gert að greiða fyrrverandi verðbréfamiðlaranum Jérôme Kerviel, sem tókst nánast að knésetja bankann, 450 þúsund evra bætur, eða 62 milljónir króna, vegna ólögmætrar uppsagnar.
Kerviel tapaði um fimm milljörðum evra fyrir hönd bankans árið 2008 og var hann í kjölfarið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir fjársvik. Hann þurfti hins vegar einungis að sitja inni í fjóra mánuði. Í dóminum sagði að honum hefði nánast tekið að fella bankann með áhættusömum viðskiptum. Kerviel bar því við að vera aðeins einföld sál sem hafi verið fórnarlamb græðgi á sínum tíma.
Samkvæmt nýja dómnum sem féll í morgun er bankanum gert að greiða Kerviel 300 þúsund evrur í bætur vegna ógreiddra bónusa á árinu 2007 auk þess sem honum voru dæmdar 150 þúsund evrur vegna uppsagnarinnar sem talin er hafa verið ólögmæt.
Í dóminum er vikið að því að stjórnendur bankans hljóti að hafa verið meðvitaðir um viðskiptin sem Kerviel stundaði. Sökin væri ekki hans þegar bankinn hafði áður látið sams konar hegðun óátalda.
Stjórnendur Société Générale segja dóminn óskiljanlegan og hyggjast þeir áfrýja málinu.