Dagsgamalt barn lánaði aflandsfélagi

Sigurður Bollason fjárfestir.
Sigurður Bollason fjárfestir. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Eins dags gamalt barn Sigurðar Bollasonar fjárfestis lánaði skattaskjólsfélagi hans hundruð milljóna króna og tvö önnur börn hans, fjögurra og sex ára, voru skráð fyrir aflandsfélögum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt Stundarinnar úr Panamaskjólunum sem unnin var í samstarfi við Reykjavík Media. Í úttektinni er fjallað um Sigurð og viðskiptafélaga hans Magnús Ármann í einu lagi sökum þess að þeir tengjast mörgum skúffufélögum sameignlega. Í grein Stundarinnar kemur fram að þeir séu næstumsvifamestir í Panamaskjölunum á eftir Björgólfsfeðgum.

Í fréttinni segir að fjögurra og sex ára gömul börn Sigurðar hafi verið skráðir eigendur skúffufélags í Panama, Bergwyn Consultants CO SA., sem stundaði lánaviðskipti við félög tengdum Sigurði eftir efnahagshrunið 2008. Sigurður og eiginkona hans, Nanna Björk Ásgrímsdóttir, voru með prókúruumboð félagsins og var Nanna Björk jafnframt með umboð til að stýra reikningi félagsins hjá svissneska bankanum Credit Suiesse í Singapúr.

Börnin voru auk þess persónulega lánveitendur Panamafélagsins en í desember 2010 lánuðu þau Bergwyn Consultants meðal annars tvær milljónir evra, eða um 300 milljónir króna. Þremur vikum áður lánuðu þau sömu upphæð til annars skúffufélags, Kaywell Equites Inc., sem þau voru sjálf skráðir eigendur að.

Hinn 22. október 2010 lánaði svo annað barn Sigurðar tvær milljónir evra, eða rúmlega 300 milljónir króna, til skúffufélagsins Chiron Group. Þetta var einum degi eftir að barnið fæddist. 

Þann 22. desember lánaði barnið, sem þá var tveggja mánaða, tvær milljónir evra, eða um 300 milljónir króna, til Kaywell Equities Inc. Tæpu ári síðar lánaði það síðan aftur skúffufélaginu Trecon Trading Inc. tvær milljónir evra. 

Eldri börnin tvö höfðu þá lánað Trecon sömu upphæð fyrr í sama mánuði.

Þannig runnu mörg hundruð milljónir til og frá börnum Sigurðar og Nönnu Bjarkar til félaga í skattaskjólum og út úr þeim aftur.

Í gögnum Mossack Fonseca kemur fram að arðgreiðslur frá aflandsfélögum Sigurðar og Magnúsar hafi numið milljörðum króna á nokkrum árum.

Stundin og Reykjavík Media gerðu árangurslausar tilraunir til að ná tali af þeim. 

Hundruð milljóna runnu til og frá börnum Sigurður og Nönnu …
Hundruð milljóna runnu til og frá börnum Sigurður og Nönnu Bjarkar til félaga í skattaskjólum og út úr þeim aftur. AFP

Umsvifamiklir fyrir hrun

Sigurður Bollason var umsvifamikill fyrir hrun og keypti hann m.a. ásamt Magnúsi Ármanni 40% hlut í Karen Millen ásamt Kaupþingi en þann hlut seldu þeir til Baugs árið 2005. Þeir sátu báðir um tíma í stjórn FL Group og fjárfesti Sigurður meðal annars í Existu, Glitni og Landsbankanum. 

Í ágúst árið 2011 var greint frá milljarða gjaldþrotum tveggja eignahaldsfélaga Sigurðar sem notuð voru í umræddum hlutabréfaviðskiptum.

Ítarlega umfjöllun má finna í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag.

Stjórn FL Group árið 2005: Kevin Stanford varamaður, Magnús Ármann, …
Stjórn FL Group árið 2005: Kevin Stanford varamaður, Magnús Ármann, Sigurður Bollason, Þorsteinn M. Jónsson, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Smári S. Sigurðsson varamaður. mbl.is/Jim Smart

Hagnaðist verulega á sölunni

Í umfjöllun um Sigurð sem birtist í Morgunblaðinu árið 2005 segir að Sigurður og Magnús Ármann, sem hafi verið helsti samstarfsmaður hans, hafi hagnast verulega á sölunni á hlutnum í Karen Millen. Þar með hafi verið lagður grunnur að frekari fjárfestingum þeirra.

Þá segir að eftir þriggja ára búsetu í Bretlandi hafi Sigurður snúið heim fyrir skemmstu þar sem hann hugðist hafa aðalheimili. „Ég fæst nú almennt við fjárfestingar og mun halda því áfram þar sem ég kem auga á tækifæri,“ sagði Sigurður. Krafinn svara um áhugamálin, svarar Sigurður að „fjölskyldan er númer eitt, tvö og þrjú.“

Sigurður er fæddur í Reykjavík árið 1973, sonur Bolla Kristinssonar, kaupmanns, og Ástu Sigurðardóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK