Erfitt er að setja verðmiða á landkynninguna sem Ísland hlýtur í kringum EM. Að sögn Íslandsstofu er kynningin skemmtilega öðruvísi að því leyti að börn eru mikið að spá í þjóðunum sem taka þátt auk þess sem íslenski þjóðfáninn er ein helsta stjarnan.
Starfsmenn Íslandsstofu eru mjög meðvitaðir um tækifærin er felast í þátttöku Íslands á EM í Frakklandi. Er meðal annars staðið fyrir ýmsum landkynningarviðburðum í tengslum við mótið og má þar nefna margvíslega list- og matarviðburði í París, St. Étienne og Marseille, þar sem leikir íslenska liðsins fara fram.
Þá var erlendum blaðamönnum boðið til Íslands í maí til að skoða aðstöðuna hér á landi og segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, að þeir hafi verið mjög hrifnir. Þá hefur stofnunin deilt ótalmörgum myndum á Facebook-síðu Inspired by Iceland og segir Inga viðbrögðin vera ljómandi góð.
„Þetta er gríðarlega jákvæð umfjöllun Íslendinga og í öllu samhengi er þetta mjög skemmtilegt,“ segir Inga en tekur þó fram að áhrifin hafi ekki verið metin með formlegum hætti. „Við erum ekki með heildstætt yfirlit og það er kannski bara erfitt að ráða við það,“ segir hún. „En áhrifin eru mjög jákvæð.“
Inga nefnir sem dæmi að Íslandsstofu hafi fyrr í dag borist póstur frá íslenska sendiráðinu í Berlín þar sem fram kom að fjöldi manna hafði sett sig í samband við sendiráðið til að lýsa yfir ánægju sinni með Ísland. „Núna ætluðu þau heldur betur að kaupa sér flugmiða til Íslands,“ segir Inga létt í bragði og lýsir efni bréfsins.
Þrátt fyrir að Ísland hafi áður vakið alþjóðlega athygli og þá meðal annars fyrir eldgos og ýmislegt annað segir Inga að árangurinn varpi nýju ljósi á landið. Hún bendir á að silfurlið okkar í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 hafi haft sambærileg áhrif auk þess sem árangur kvennalandsliðsins í fótbolta hafi einnig vakið mikla athygli.
Inga bendir á að umfjöllunin sé einnig frábrugðin að því leyti að íslenski fáninn fái mikla athygli auk þess sem mörg barnsaugu beinist að landinu. Litlir fótboltaiðkendur séu að safna spjöldum og kynna sér löndin sem taka þátt á mótinu.