Kamran Keivanlou og Gholamhossein Mohammad Shirazi, eigendur Alfacom ehf., hafa selt 50% hlut félagsins í skemmtistaðnum Austur.
Þetta staðfestir Kamran í samtali við mbl.is. Hluturinn var seldur fyrir nokkrum mánuðum til utanaðkomandi fjárfestis. Kaupverðið er trúnaðarmál en Kamran segir að hluturinn hafi verið seldur fyrir gott og sanngjarnt verð. Segist hann vera ánægður og feginn því að hafa dregið sig út úr rekstrinum.
Félagið keypti helmingshlut í skemmtistaðnum árið 2013.
Deilur hafa staðið á milli eigenda Austur undanfarin ár og kærur gengið á víxl. Þeir Ásgeir Kolbeinsson og Styrmir Þór Bragason eiga enn hinn helmingshlutinn í skemmtistaðnum.
mbl.is greindi frá því í janúar síðastliðnum að þeir Kamran og Gholamhossein hefðu í hyggju að selja 50% hlut Alfacom ehf. Voru þeir þá komnir með gott boð frá líklegum kaupanda.
Frétt mbl.is: Hyggjast selja hlut sinn í Austur