Eigendur heildverslunar í Panamaskjölum

Systkinin Helga Guðrún Johnson og Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Systkinin Helga Guðrún Johnson og Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Eigendur heildverslunarinnar Ó Johnson & Kaaber hf. stofnuðu félag í Tortóla árið 2001 og notuðu það meðal annars til að kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum af eignarhaldsfélagi sínu á Íslandi fyrir á fjórða hundrað milljónir króna.

Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media sem unnin er upp úr Panamaskjölunum.

Félagið hét Eliano Management Corp. og fengu þau Guðrún Gunnlaugsdóttir Johnson og börn hennar öll prókúruumboð yfir félaginu í september 2010. Faðir þeirra, Ólafur H. Johnson, hafði látist í júní sama ár.  

Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að helsti tilgangur Tortólafélagsins virðist hafa verið að kaupa hlutabréf sem voru í eigu fyrirtækisins Johnson ehf. sem stofnað var í ársbyrjun árið 2002. Inni í þessu félagi voru hlutabréf að verðmæti 329 milljónir króna í desember árið 2002. Um var að ræða bréf í Eimskipafélagi Íslands upp á tæplega 173 milljónir, tæplega 81 milljón króna í Flugleiðum, auk bréfa í Sjóvá, Hampiðjunni og Tryggingamiðstöðinni. Öll þessi bréf voru seld inn í Tortólafélagið í lok árs 2002.

Greiðslan á kaupverðinu var lögð inn á reikning Johnson ehf. í Búnaðarbankanum en með þessu móti var hlutabréfum fjölskyldunnar á Íslandi komið í eigu félags í skattaskjóli.

Í ársreikningi Johnson ehf. fyrir árið 2002 kemur fram rúmlega 8 milljóna króna tap og er ekkert í ársreikningum sem gefur tilefni til að ætla að félagið hafi selt hlutabréf fyrir á fjórða hundrað milljónir króna á því ári.

370 milljóna króna lán

Eftir að samningurinn um kaupin á hlutabréfunum var undirritaður fékk Eliano Management Corp lán frá Landsbankanum í Lúxemborg upp á tæplega tvær milljónir dollara 19. desember 2002. Landsbankinn veitti svo frekari lán til félagsins árið 2004, 2005 og 2007 þannig að heildarlánveitingin fór upp í 4,2 milljónir evra, eða rúmlega 370 milljónir króna. 

Ítarlegri umfjöllun má lesa hjá Stundinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK