Ósáttur við borgina og lokar Minju

Versluninni verður lokað um mánaðamótin og er helmingsafsláttur af öllum …
Versluninni verður lokað um mánaðamótin og er helmingsafsláttur af öllum vörum þangað til. Skjáskot/Já

Versluninni Minju á Skólavörðustíg verður lokað um mánaðamótin. Eigandinn sem hefur rekið verslun í fjörutíu ár segir lokanir í miðbænum og hroka í borgaryfirvöldum hafa fyllt mælinn. Hann segist þó sáttur að hætta og hefði eflaust haldið áfram ef gangurinn í versluninni hefði verið betri.

Örn Svavarsson stofnaði Heilsuhúsið árið 1973 og rak heildsölu fyrst um sinn áður en rekstur samnefndrar verslunar var hafinn. Hann seldi fyrirtækið árið 2005 og flutti utan en kom síðan aftur heim og opnaði Minju á horni Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis árið 2009. Um mánaðamótin verður skellt í lás og hefur Örn ekki hug á að fara út í frekari rekstur að svo stöddu. „Mér finnst ég eiginlega bara búinn að standa mína vakt nokkuð vel,“ segir Örn. 

Húsfylli vegna afsláttar

Það hefur verið húsfylli í Minju á síðustu dögum þar sem allar vörur eru á helmingsafslætti fram að lokun. Segist hann ekki hafa auglýst það sérstaklega heldur hafi orðið einfaldlega borist á Facebook. „Ég er nú svo orðinn svo gamall að ég kann ekkert á þetta Facebook og gerði mér ekki alveg grein fyrir því hversu öflugt þetta væri,“ segir Örn léttur í bragði.

Inntur eftir skýringum á lokuninni segir Örn nokkrar ástæður liggja þar að baki. „Í fyrsta lagi hentar okkur ekki alveg þessi pólitík borgarstjórnar sem gengur út á það að loka bænum fyrir bílaumferð,“ segir hann. „Okkar kúnnar eru að stærstum hluta fólk sem er oft á tíðum á leið í athafnir, skírn, afmæli eða eitthvað þess háttar og kemur við til að kaupa gjöfina i leiðinni.“

Ekki er lokað fyrir bílaumferð beint fyrir utan Minju en Örn telur það samt hafa áhrif á fólk sem miklar það fyrir sér að fara í miðbæinn að versla. 

Örn Svavarsson stofnaði Heilsuhúsið á áttunda áratugnum en Minja var …
Örn Svavarsson stofnaði Heilsuhúsið á áttunda áratugnum en Minja var opnuð árið 2009. mbl.is/Árni Torfason

Mætti hroka við ábendingu

Örn segir tilsvör borgaryfirvalda við ábendingum einnig hafa haft áhrif og vísar til þess að um jólin hafi perurnar sprungið í tveimur ljósastaurum sem eru beint fyrir utan verslunina. „Þá gerðist það að ég var kynntur fyrir stúlku sem er í þessum skipulagsmálum hjá Reykjavíkurborg og ég hitti hana á jólamarkaði í bænum. Þar nefndi ég við hana hvort ekki væri hægt að athuga þetta,“ úrskýrir Örn. Hann segir að svörin hafi einkennst af hroka og sagðist hún ekki vilja taka við ábendingunni utan vinnutíma. 

„Síðan voru aðilar sem eru að höfða meira til útlendinga að biðja um að fá húsnæðið leigt og ég hugsaði bara með mér; til hvers að vera standa í því að vinna í þessu umhverfi sem ég var að pirra mig á,“ segir Örn.

Örn á sjálfur húsnæðið og hefur það verið leigt til annarrar verslunar sem hann segir að muni bjóða upp á vandaðar vörur.

Örn telur að kjarni miðbæjarins muni þróast í átt að …
Örn telur að kjarni miðbæjarins muni þróast í átt að kaffihúsum og túristabúðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þróast í átt að kaffihúsum og túristabúðum

Að sögn Arnar hafa sölutekjur verslunarinnar verið óbreyttar á síðustu tveimur árum. Hins vegar hafi samsetningin breyst þar sem sala til Íslendinga hafi minnkað en sala til útlendinga aukist. Telur hann að þetta megi rekja til fyrrnefndra þátta. Hann bendir á að lokarnir í bænum falli betur að starfsemi sumra fyrirtækja líkt og kaffihúsa og telur hann að uppistaðan í miðbænum muni þróast í þá átt: kaffihús og túristabúðir.

„Ég hef á tilfinningunni að áhuginn á að viðhalda hefðbundnum verslunum eða styðja við bakið á þeim sé enginn. Menn segjast ekki ráða yfir plássinu, ef einhver vilji opna lundabúð sé það bara þannig, en mér finnst lágmark að hugsað sé vel um okkur fyrir jólin. Þá eru Íslendingar að koma niður í bæ að versla og mér finnst leiðinlegt að slökkt sé á öllum ljósastaurum og að andrúmsloftið í götunni sé drungalegt.“

Hann segist hafa kannað peruskiptin nánar hjá borginni og fékk þá svör um að sparnaðaráætlun borgarinnar gerði ráð fyrir að ekki yrði skipt um þær. „Ef menn hefðu bara svarað með því að borgin væri blönk og að ekki væru til peningar væri þetta kannski annað en maður mætti bara hroka. Maður nennir ekki að vinna í þessu umhverfi,“ segir Örn.

„Ef gangurinn í búðinni hefði verið meiri hefði maður kannski haldið áfram en ég alls ekkert ósáttur við að hætta. Þetta hefur verið gaman í þá fjóra áratugi sem ég hef verið í þessu og ég bara sáttur við að hætta núna,“ segir Örn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK