Bjóða upp á bakkelsi í Varmahlíð

Bakaríið stendur við Aðalgötu á Sauðárkróki.
Bakaríið stendur við Aðalgötu á Sauðárkróki. Ljósmynd/Sauðárkróksbakarí

Sauðárkróksbakarí færði út kvíarnar í gær og hefur útibú verið opnað í Varmahlíð í Skagafirði. Eigandi þess, Róbert Óttarsson, sá tækifæri í húsnæði þar sem Arion banki var áður. Skortur á vinnuafli kom þó í veg fyrir að hægt væri að opna fyrr en í dag.

Brauðgerð var fyrst stofnuð á Sauðárkróki í kringum árið 1880. Í dag stendur bakaríið við Aðalgötu 5 og hefur verið þar frá árinu 1939. Árið 1979 skemmdist húsnæði bakarísins verulega í bruna en var það byggt upp á ný. Í dag starfa að meðaltali tólf til fimmtán manns í bakaríinu.

Nálægðin við þjóðveginn heillaði en eðlilega eiga heldur fleiri leið hjá Varmahlíð en eftir Aðalgötu á Sauðárkróki. „Það er kannski aðallega það sem ýtir undir þetta hjá okkur, þarna erum við komin í alfaraleið,“ segir Róbert í samtali við mbl.is. Hann hafði samband við bankann og kannaði hvort mögulegt væri að fá húsið leigt. Það gekk upp að lokum og hefur hann húsið á leigu út september.

Útibúið í Varmahlíð var opnað í morgun.
Útibúið í Varmahlíð var opnað í morgun. Ljósmynd/Sauðárkróksbakarí

Stefnt er að því að útibúið verði opið frá kl. 8 til 18 á virkum dögum og frá kl. 9 til 16 um helgar. „Við rennum algjörlega blint í sjóinn og vitum í rauninni ekkert hvort þetta muni ganga yfir höfuð. Okkur langaði bara að reyna þetta,“ segir Róbert.

Hann segir vinsælustu vöruna í bakaríinu líklega vera kjúklingalokuna. Þá eru kleinuhringirnir einnig mjög eftirsóttir. „Í stykkjatali seljum við örugglega langtum mest af kleinuhringjum. Þeir fara alveg gríðarlega mikið. Það sem við fleytum okkur dálítið á er að við búum til okkar dót sjálf, það er ekkert kassabrauð í þessu bakaríi. Við gefum okkur út fyrir að vera dálítið gamaldags,“ segir Róbert.

Í rúmlega þrjátíu ár hefur fólk komið saman í bakaríinu við Aðalgötu á Sauðárkróki fyrir hádegi á laugardögum, gætt sér á bakkelsi og spjallað saman. Í dag kemur fólk með fjölskyldu sína sem áður kom með foreldrum sínum og er gjarnan mikið hlegið.

Facebooksíða Sauðárkróksbakarís

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK