Hard Rock opnað í október

Veitingastaður Hard Rock verður opnaður í Iðuhúsinu.
Veitingastaður Hard Rock verður opnaður í Iðuhúsinu. Skjáskot af ja.is

Framkvæmdir eru hafnar við veitingahús Hard Rock sem verður opnað í október næstkomandi við Lækjargötu 2. Að sögn Birgis Þórs Bieltvedt, sem er með sér­leyfi fyr­ir Hard Rock hér á landi, verður staðurinn á þremur hæðum og á þeirri neðstu verður tónleikasalur sem til stendur að nota á Airwaves í haust.

Áætlanir um Hard Rock hafa legið nokkuð lengi hjá skipulagsyfirvöldum sem höfnuðu upphaflegri umsókn Birgis þar sem veitingastaður keðjunnar mátti ekki vera á jarðhæð við Lækjargötu 2 vegna starfsemiskvóta í miðborginni. Málið var hins vegar leyst með því að koma fyrir verslun á jarðhæð og fékkst því loksins byggingarleyfi í síðustu viku.

Til stóð að opna staðinn í sumar en ljóst er að það mun ekki nást.

Mynd af Wikipedia

1.000 fermetra staður

Í kjallara hússins verður bar og salur með sviði sem nota má fyrir tónleika, uppistand og aðra viðburði, að sögn Birgis sem bendir jafnframt á að hópar muni einnig eiga kost á því að leigja salinn. Á jarðhæðinni verður síðan verslun Hard Rock og móttaka auk þess sem 200 fermetra rými verður leigt út til þriðja aðila. Birgir segist ekki vera kominn með leigutaka og hefur rýmið ekki verið auglýst. Eitt er þó víst að þar verður ekki veitingarekstur þar sem slíkt er bannað á jarðhæð. Líklega verður þarna einhver verslun sem á góða samleið með Hard Rock að mati eiganda.

Veitingastaðurinn verður síðan á annarri hæð en þar verður sætapláss fyrir um 150 manns. Staðurinn í heild verður um eitt þúsund fermetrar.

Að sögn Birgis er búið að ráða fyrsta starfsmann fyrirtækisins en það er sölu- og markaðsstjóri og stendur nú leit að fólki í framkvæmda- og veitingastjórastöður yfir. 

Framkvæmdir eru nýlega hafnar og hefur húsnæðið verið tæmt til þess að hægt sé að koma staðnum fyrir.

Frá Hard Rock í Kringlunni sem var lokað árið 2005.
Frá Hard Rock í Kringlunni sem var lokað árið 2005. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ellefu ár án Hard Rock

Mbl. greindi fyrst frá áhuga Hard Rock á að koma til Íslands í apríl í fyrra en það var í september sem Birgir tryggði sér sérleyfi fyrir staðnum. Í lok desember tryggði hann sér Iðuhúsið svokallaða, eða Lækjargötu 2, fyrir reksturinn. 

Ellefu ár eru síðan Hard Rock í Kringlunni var lokað en staðurinn var upphaflega opnaður hér á landi árið 1987. Það var veit­ingamaður­inn Tóm­as Tóm­as­son, eigandi Hamborgarabúllunnar, sem opnaði staðinn á sín­um tíma en Gaum­ur hf., eign­ar­halds­fé­lag Bón­us-feðga, keypti staðinn árið 1999 og átti hann þar til hon­um var lokað 31. maí 2005. 

Í dag eru 145 Hard Rock veit­ingastaðir í 59 lönd­um auk 21 hót­els og tíu spila­víta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK