Fjárfestirinn Warren Buffet gaf nýlega 2,9 milljarða dollara, um 357 milljarða króna, til góðgerðarmála. Með þessu slær hann fyrra góðgerðarmet frá júlí í fyrra þegar hann gaf 2,84 milljarða dollara. Í júlí 2014 gaf hann 2,8 milljarða dollara.
Allar gjafirnar eru í formi hlutabréfa í fjárfestingafélagi hans, Berkshire Hathaway, og miðast andvirðið við gengi þeirra við lokun markaða í gær.
Gjöfin rennur til fimm góðgerðarmálefna og stærsti hlutinn fer til samtaka Bill og Melindu Gates. Góðgerðarsamtök þeirra eru þau stærstu í heimi og einblína á að útrýma fátækt, bæta skólakerfið í Bandaríkjunum og varnir gegn sjúkdómum á borð við alnæmi og malaríu.
Eftir gjöfina eru auðæfi Buffets metin á 65,6 milljarða dollara og er hann þriðji ríkasti maður heims.