Félagið Hans Petersen ehf., sem hefur haldið utan um rekstur samnefndrar verslunar frá árinu 2005, hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Saga Hans Petersen nær aftur til 1907 þegar fyrsta verslunin var opnuð í Bankastræti. Síðan hefur fyrirtækið haldið úti nokkrum verslunum en aðeins ein stendur eftir í Ármúlanum í dag.
Verslun Hans Petersen hefur verið rekin í nokkrum félögum í gegnum tíðina.
Félagið var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. júlí sl.
Nafni Hans Petersen ehf. var nýlega breytt í HP framköllun ehf. en fyrirtækið skilaði síðast ársreikningi árið 2013 og var það þá rekið með fjórtán milljóna króna tapi. Tapið hafði þó dregist saman milli ára en árið 2012 nam tapið tæpum 42 milljónum króna.
Í lok ársins 2013 skuldaði félagið um 52 milljónir króna en eignir hljóðuðu upp á rúmar 12 milljónir króna.