Verðbólga í júlí er sú minnsta frá því í ársbyrjun 2015. Útlit er fyrir að verðbólgan haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans langt fram eftir næsta ári, en hún hefur nú verið samfleytt undir markmiðinu í tvö og hálft ár. Þessa þróun má fyrst og fremst þakka styrkingu krónu og lágu eldsneytis- og hrávöruverði, en einnig virðast áhrif af hraðri hækkun á innlendum kostnaði koma hægar fram í verðlagi en búast mátti við.
Í Morgunkorni greiningar Íslandbanka er farið yfir nýbirta vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birti í dag en vísitalan lækkaði um 0,32% í mánuðinum.
Verðbólga mælist nú 1,1% en var 1,6% í júní síðastliðnum. Að húsnæði undanskildu mælist raunar 0,6% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði.
Úlit er fyrir að verðbólga reynist áfram hófleg hér á landi, enda virðist lítið lát á styrkingu krónu til skemmri tíma. Bráðabirgðaspá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að neysluverð hækki um 0,4% í ágúst, verði óbreytt í september en hækki á ný um 0,1% í október.
Miðað við spár Íslandsbanka verður verðbólga 1,4% í október. Í kjölfarið eru taldar horfur á að verðbólgan aukist hægt og sígandi, en hún gæti þó haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans talsvert fram eftir næsta ári.
Það eru því horfur á að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiðinu í hátt á fjórða ár samfellt, gefi gengi krónu ekki umtalsvert eftir á komandi misserum. Slíkt væri einsdæmi í hagsögu Íslands á lýðveldistímanum, og gæti orðið til þess að auka trú landsmanna á því að unnt sé að halda verðlagi tiltölulega stöðugu hérlendis þrátt fyrir brösuga sögu í þeim efnum síðustu áratugina.