Fastlega er gert ráð fyrir að Englandsbanki lækki í dag stýrivexti sína í fyrsta sinn frá því í marsmánuði árið 2009. Vextirnir eru nú 0,5% en verða, ef að líkum lætur, 0,25%.
Peningastefnunefnd bankans ákvað í síðasta mánuði að halda vöxtunum óbreyttum í 0,5%, þrátt fyrir að flestir hagfræðingar höfðu gert ráð fyrir að þeir yrðu þá þegar lækkaðir.
Ekki er talið öruggt að Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, tilkynni um lækkun í dag, en þó er ljóst að mikill þrýstingur er á honum að grípa til aðgerða. Vísbendingar eru um hægagang í breska hagkerfinu.
Samkvæmt nýlegum tölum hefur framleiðsla dregist saman í þjónustugeiranum að undanförnu og þá hefur byggingargeirinn jafnframt hægt á sér. Margir sérfræðingar telja að Englandsbanki verði að grípa til einhverra aðgerða til þess að örva hagkerfið.
„Horfurnar í kjölfar Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa versnað töluvert. Það er mikil og raunveruleg þörf á innspýtingu núna,“ segir Samuel Tombs, aðalhagfræðingur hjá Pantheon Macroeconomics, í samtali við breska ríkisútvarpið.
David Blanchflower, fyrrum nefndarmaður í peningastefnunefnd Englandsbanka, segir að Englandsbanki verði að lækka stýrivextina. Það sé það minnsta sem hann geti gert.