Fjárfestar flýja til Tyrklands

Stuðningsmenn Recep Tayyip Erdogans, forseta Tyrklands, á Kizilay-torginu í Ankara.
Stuðningsmenn Recep Tayyip Erdogans, forseta Tyrklands, á Kizilay-torginu í Ankara. AFP

Hryðjuverkaárásir, blóðug valdaránstilraun, pólitískar hreinsanir. Flestir myndu halda að nú væri ekki góður tími til þess að fjárfesta í Tyrklandi. Engu að síður flýja fjárfestar nú unnvörpum til landsins.

Undanfarnar vikur hafa verið róstursamar í landinu, svo ekki sé meira sagt. Hryðjuverkamenn gerðu árás á aðalflugvöllinn í Istanbúl, misheppnuð valdaránstilraun vakti áleitnar spurningar um pólitískan stöðugleika í landinu og þá lækkuðu matsfyrirtæki lánshæfiseinkunn tyrkneskra ríkisskulda.

En hvar í heiminum fengu fjárfestar hæstu ávöxtunina í síðustu viku? Jú, í Tyrklandi. Tyrknesk hlutabréf hækkuðu um 6,6% í verði og skuldabréf um 3,8%, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska bankanum Merrill Lynch.

Nýmarkaðir sækja í sig veðrið

Nýmarkaðir, eins og sá tyrkneski, eru þekktir fyrir miklar og öfgakenndar sveiflur. En uppsveiflan í Tyrklandi, eins skammvinn og hún kann að reynast, undirstrikar hins vegar það hversu mikla áhættu fjárfestar eru reiðubúnir að taka þegar flestir „hefðbundnu“ og áhættulitlu fjárfestingarkostir þeirra, til dæmis ríkisskuldabréf, gefa bara neikvæða ávöxtun.

Það er ástæðan fyrir því að tyrknesk ríkisskuldabréf til tíu ára, með níu prósenta ávöxtun, kunna að freista margra fjárfesta, jafnvel þótt verðbólgan í landinu sé 8,7% og fari ört hækkandi og tyrkneska líran sé í frjálsu falli.

Hluta- og skuldabréf á nýmörkuðum hafa stigið mjög í verði frá því í fyrra. Hlutabréfavísitölur í Brasilíu hafa til að mynda hækkað um allt að 54% það sem af er ári og nemur hækkunin 24% í Suður-Afríku.

AFP

Bréfin hlutfallslega ódýr

Enn eru hlutabréf í nýmarkaðsríkjum ódýr í samanburði við til að mynda bandarísk og evrópsk hlutabréf. Greinendur segja að enn sé því hægt að gera þar kostakaup.

Hækkandi olíuverð og aukinn pólitískur stöðugleiki í ríkjunum hafa hjálpað til.

Margir fagfjárfestar, allt frá stærstu lífeyrissjóðum heims til tryggingafélaga, eru undir miklum þrýstingi, en þeim hefur reynst erfitt, ef ekki ómögulegt, að fá góða ávöxtun á undanförnum misserum. Stýrivextir eru enda í sögulegu lágmarki víðast hvar og jafnvel sums staðar neikvæðir. Margir þeirra hafa leitað skjóls, ef svo má segja, í nýmarkaðsríkjum, þar á meðal Tyrklandi. Áhættan þar er að vísu mikil, en ávöxtunin góð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK