Gert ráð fyrir lítilli verðbólgu

Hækkun verðtryggðu kröfunnar á markaði hefur orðið til þess að …
Hækkun verðtryggðu kröfunnar á markaði hefur orðið til þess að verðbólguálag nálgast nú verðbólgumarkmið eða 2,5%. Tíu ára verðbólguálag stendur nú í 2,9% og 5 ára álag í 2,8%. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fjárfestar virðast hafa fært sig úr verðtryggðum skuldabréfum yfir í óverðtryggð bréf og endurspeglar það minni verðbólguvæntingar á markaði. Þetta kemur fram í nýjum markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Þar segir jafnframt að ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hafi farið hækkandi undanfarið og hefur sú þróun í raun átt sér stað frá því í lok síðasta árs. Á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa lækkað síðustu tvo mánuði, hvort sem litið er til ríkisbréfa eða sértryggðra bréfa.

Haldist undir eða við verðbólgumarkmið

Lækkun á vísitölu neysluverðs í júlí var meiri en spár gerðu ráð fyrir eða -0,32% milli mánaða og er útlit fyrir að verðbólgan, sem mælist nú 1,1%, haldist undir eða við verðbólgumarkmið vel inn á næsta ár. Það eru fyrst og fremst innlendir fjárfestar sem síðustu mánuði hafa sótt í óverðtryggð skuldabréf en ekki erlendir aðilar, líkt og misserin á undan. Í markaðspunktunum segir að verulega hafi dregið úr innflæði erlendra aðila inn á íslenskan skuldabréfamarkað eftir að Seðlabankinn kom á bindingu á innstreymi reiðufjár erlendis frá. Flæðið á skuldabréfamarkaði er því ekki litað af innstreymi erlendra aðila líkt og áður fyrr. „Lækkun verðbólguvæntinga á markaði virðist því vera heimatilbúin,“ segir í punktunum.

Gera ráð fyrir lækkandi verðbólguvæntingum til lengri tíma

Fyrrnefnd hækkun verðtryggðu kröfunnar á markaði hefur orðið til þess að verðbólguálag nálgast nú verðbólgumarkmið eða 2,5%. Tíu ára verðbólguálag stendur nú í 2,9% og 5 ára álag í 2,8%. Það er nýmæli á Íslandi að markaðurinn meti sem svo að verðbólga verði að meðaltali svo lítil sem 2,9% næstu 10 árin og má túlka það sem merki um þó nokkra lækkun verðbólguvæntinga. Vitnað er í síðustu væntingakönnun markaðsaðila frá 12. maí þar sem verðbólguvæntingar til 5 ára voru 3,1% og væntingar til 10 ára 3,5%. „Það má því gera ráð fyrir að í næstu væntingakönnun, sem fer fram 25. ágúst, muni verðbólguvæntingar til lengri tíma lækka,“ segir í punktunum.

Önnur ástæða fyrir dræmri spurn eftir verðtryggðum bréfum, fyrir utan hjaðnandi verðbólguvæntingar, kann að vera þau skref sem hafa verið stigin í losun fjármagnshafta, og þá vegur þyngst aukin fjárfestingaheimild lífeyrissjóða erlendis. Þeir hafa nú heimild sem nemur 40 milljörðum króna fram til byrjunar september til að fjárfesta á fjármálamörkuðum utan landsteinanna. Samtals nemur því heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis 80 milljörðum króna frá því um mitt ár í fyrra og fram í september á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK