Á morgun hefjast kosningar á Facebook-síðu Nóa Siríus þar sem kosið verður um framtíð piparkroppsins hjá fyrirtækinu. Kosningin stendur yfir í viku en piparkroppið, sem átti upphaflega að vera aðeins í boði í sumar, hefur slegið öll vinsældamet.
Fyrri frétt mbl.is: Sumarlager af kroppi löngu búinn
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Nóa segist vona að undirtektirnar í kosningunum verði í samræmi við söluna á piparkroppinu sem hefur verið alveg gríðarleg. Átti kroppið að vera í boði í takmörkuðu magni og aðeins í sumar en það hefur nú verið endurskoðað í ljósi vinsældanna. Silja segir piparkroppið á góðri leið með að taka fram úr öðrum vörum framleiðandans í vinsældum og að nú væri það eina í stöðunni að kjósa um hvort Nói ætti að halda framleiðslunni áfram.
Eins og margir hafa orðið varir við er hálfgert pipar-æði á landinu þar sem piparhúðað sælgæti, íspinnar og jafnvel ostakökur hafa rokið upp í vinsældum. Aðspurð hvort að þetta sé séríslenskt æði segist Silja ekki vita um stöðuna hjá öðrum sælgætisframleiðendum erlendis en að stór hópur á Norðurlöndunum sæki í piparvörur Nóa sem eru fluttar út. „Við erum til dæmis að flytja Lakkrís-piparperlurnar okkar út til Norðurlandanna í tonnatali og það er ljóst að það er stór hópur þar sem er virkilega hrifinn,“ segir Silja og nefnir Norðmenn, Færeyinga og Dani í því samhengi.
Eins og fyrr segir hefst kosningin á morgun á Facebook-síðu Nóa og geta aðdáendur piparkroppsins sett x við piparinn frá klukkan níu í fyrramálið. Þess má geta að nokkrir heppnir sem taka þátt í kosningunum geta unnið kassa af kroppinu.