Lífeyrissjóðir landsins lánuðu um 38 milljarða króna til heimila á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er um áttföld aukning á milli ára, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands.
Hlutdeild lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði hefur vaxið verulega á undanförnum misserum eða allt frá því að stærstu lífeyrissjóðir landsins lækkuðu vexti á íbúðalánum sínum og hækkuðu jafnframt hámark lána í byrjun síðasta vetrar.
Útlán lífeyrissjóða til heimila námu um 7,4 milljörðum króna í júnímánuði en samtals námu þau um 38 milljörðum á fyrri helmingi ársins. Það er mikil breyting frá því sem áður var, en á sama tíma í fyrra námu útlánin aðeins um fimm milljörðum.
Margir lífeyrissjóðir breyttu lánareglum sínum í byrjun síðasta vetrar, hækkuðu lánshlutfall íbúðalána og lækkuðu vexti á lánunum þannig að lánskjörin urðu hagstæðari en þau sem viðskiptabankarnir bjóða.
Var það Gildi lífeyrissjóður sem reið á vaðið í desember árið 2013 með því að hækka lánshlutfallið í 75%, lækka lántökugjald í 0,5% og afnema reglu um hámarksfjárhæð lána.
Fleiri lífeyrissjóðir fylgdu í kjölfarið.
Má segja að sprenging hafi orðið í útlánum lífeyrissjóðanna til heimila allar götur síðan. Er útlánaaukningin til að mynda áttföld á fyrstu sex mánuðum ársins, eins og áður sagði.
Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Rekjavík Economics, bendir á að lífeyrissjóðirnir starfi ekki undir eins ströngu regluverki Fjármálaeftirlitsins og viðskiptabankarnir.
„Þeir eru ekki undir sömu eiginfjárkröfum og regluverki og bankarnir sem þýðir að þeir geta lánað ódýrara. Ef það breytist gæti það breytt forsendunum. Til dæmis ef Fjármálaeftirlitið færi fram á lífeyrissjóðirnir héldu eftir nægu eigin fé til þess að geta mætt áföllum. Það hefur ekki verið og þess vegna hafa sjóðirnir getað fjármagnað sig ódýrara heldur en bankarnir og Íbúðalánasjóður,” segir hann í samtali við mbl.is.
Hann segir aukna sókn lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaðinn gott mál fyrir neytendur. Lánskjör sjóðanna séu mismunandi en þau séu að jafnaði hagstæðari en áður og jafnframt hagstæðari en þau sem bankarnir bjóða upp á.
„Það má segja að með lækkandi vöxtum hjá lífeyrissjóðunum hafi fasteignaverð líka hækkað. Lækkandi vextir ýta undir hærra fasteignaverð og sú hækkun er kannski ekki öll komin fram. En þetta er ágætis mál og kemur neytendum til góða.“
Spurningin til framtíðar sé hins vegar sú hvort lífeyrissjóðirnir hafi innviði til þess að mæta vanskilum og öðrum áföllum, ef það harðnar á dalnum. Fjármálastofnanir hafi slíka innviði, en ekki sé gert ráð fyrir þeim í lífeyrissjóðakerfinu. Lífeyrissjóðirnir geri þess í stað ráð fyrir að fá ávallt greitt til baka.
Enda hafi þeir leitað á nokkuð örugg mið með því að bjóða upp á 65-75% lánshlutfall.
„Þannig að fyrstu kaupendur og þeir sem eiga kannski 10% eigin fé, fyrst og fremst ungt fólk, hafa átt erfitt með að nýta sér lán lífeyrissjóðanna,“ segir hann. Þeir leiti þá frekar til viðskiptabankanna þar sem lánshlutfallið er hærra.
„Lífeyrissjóðirnir virðast höfða til fólks á miðjum aldri sem er með tryggar tekjur í tryggri atvinnu. Þeir eru þar af leiðandi að ná í besta hópinn og eru eflaust sáttir við það.“