Húshitunarkostnaður langlægstur á Íslandi

Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. …
Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það kost­ar fimm­falt meira á ári að hita húsið sitt í Hels­inki en í Reykja­vík. Hús­hit­un­ar­kostnaður er lang­lægst­ur á Íslandi og er þre­falt minni en þar sem næ­stó­dýr­ast er að hita.

Þetta kem­ur fram í nýrri sam­an­tekt Samorku um hús­hit­un­ar­kostnað á Norður­lönd­um. Stuðst er við töl­ur frá stærstu veitu­fyr­ir­tækj­um í hverri höfuðborg.

Þar seg­ir að ár­leg­ur kostnaður við að hita heim­ili á Íslandi sé rúm­ar 85 þúsund krón­ur á ári fyr­ir íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu. Íbúi í Hels­inki þarf hins­veg­ar að borga hátt í hálfa millj­ón ár­lega, eða um 428 þúsund krón­ur. Í Stokk­hólmi er næst­dýr­ast að hita húsið sitt, en þar greiða íbú­ar rúm­lega 300 þúsund krón­ur á ári. Íbúar í Kaup­manna­höfn og Osló borga svipað á ári, tæp­lega 300 þúsund krón­ur.

Í sam­an­tekt­inni seg­ir að skatt­ar vegi nokkuð þungt á hús­hit­un­ar­reikn­ingi Norður­landa­búa, en auk virðis­auka­skatts er inn­heimt­ur sér­stak­ur orku­skatt­ur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

Lang­flest heim­ili lands­ins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykja­vík er þetta hlut­fall 100%. Auk þess að vera ódýr kost­ur er jarðhiti að auki end­ur­nýj­an­leg­ur og um­hverf­i­s­vænn orku­gjafi. Í hinum Norður­landa­ríkj­un­um er að mestu not­ast við raf­orku eða jarðefna­eldsneyti við upp­hit­un húsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK