Aðstæður til haftalosunar aldrei betri

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að aðstæður nú séu kjörnar til þess að losa um fjármagnshöftin. Hún fagnar áformum stjórnvalda, sem kynnt voru í gær, um að stíga frekari skref til losunar hafta og segir þau löngu tímabær.

„Við erum að sjá sterkan hagvöxt. Gjaldeyrisforðinn er rúmur og dugar til þess að mæta væntu útflæði ef til þess kemur. Vaxtastig erlendis er jafnframt í sögulegu lágmarki þannig að efnahagsaðstæður gætu vart verið betri til þess að losa um höftin og hefur raunin eiginlega verið sú um þó nokkurt skeið.

Þannig að við fögnum því að nú sé loksins komin fram áætlun um frekari losun fjármagnshafta,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Frumvarpið, sem kynnt var í gær og verður lagt fram á þingi í dag, felur í sér rýmkun á höftunum fyrir einstaklinga og fyrirtæki annars vegar við gildistöku laganna og hins vegar um næstu áramót.

Stjórnmálamenn sýni kjark

Hún segir að vissulega sé um varfærin skref að ræða. Hins vegar standi til þess að taka frekari skref þegar aðstæður leyfa. „Og ég vona að stjórnmálamenn muni hafa kjark til þess að stíga þau skref.

En þar sem þetta eru varfærin skref, þá get ég ekki séð að þetta muni hafa veruleg áhrif á gengi krónunnar eða ógna efnahagslegum stöðugleika, þar sem það er lítil hætta á verulegu útflæði fjármagns, einkum og sér í lagi í ljósi þess hvernig aðstæður eru erlendis.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Golli

Þannig að við höfum ekki áhyggjur af því að aðgerðirnar muni ógna efnahagslegum stöðugleika eða valda verulegri veikingu krónunnar,“ segir Ásdís.

Allt eins megi velta því fyrir sér hvort krónan gæti styrkst vegna þessara tíðinda, þar sem þau hafi jákvæð áhrif á orðspor landsins. Gætum við þannig orðið vör við aukinn áhuga erlendra fjárfesta á að koma hingað til lands.

Ekki samkeppnishæf innan hafta

Hún segir aðgerðirnar skipta verulegu máli fyrir fyrirtæki og ekki síst innan alþjóðageirans. Við séum í raun ekki samkeppnishæf þjóð innan hafta.

„Við megum einnig gera ráð fyrir því að lánshæfi ríkissjóðs muni batna þegar við losum um höft, enda hafa höftin verið helsti dragbítur lánshæfisns.

Batnandi lánshæfi þýðir að erlend vaxtakjör ríkissjóðs og þar af leiðandi innlendra fyrirtækja muni lækka.

Þannig mun þetta að lokum skila sér til heimila, í hagkvæmara rekstrarumhverfi.“

Rýmkun haftanna muni enn fremur auka áhættudreifingu sem sé af hinu góða. Íslensk fyrirtæki geti loksins fjárfest erlendis frjálst. „Við myndum þó vilja sjá að fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna verði auknar enn frekar til þess að stuðla að frekari áhættudreifingu á sparnaði landsmanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK