Krónan þarf ekki endilega að veikjast

Við gildis­töku laganna mun bein er­lend fjár­fest­ing inn­lendra aðila verða …
Við gildis­töku laganna mun bein er­lend fjár­fest­ing inn­lendra aðila verða ótak­mörkuð en háð staðfest­ingu Seðlabanka Íslands. mbl.is/Arnaldur

„Þetta eru mjög jákvæð en á sama tíma varfærin skref,“ segir Hrafn Steinarsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, um næstu skref í losun fjármagnshafta sem kynnt voru í gær. 

Frumvarpið, sem kynnt var í gær og verður lagt fram á þingi í dag, felur í sér rýmkun á höftunum fyrir einstaklinga og fyrirtæki annars vegar við gildistöku laganna og hins vegar um næstu áramót.

Hrafn segir að beðið hafi verið eftir því að þessi skref yrðu stigin. Tímasetningin nú sé kjörin til þess. 

„Ástæðan er sú að nafngengi krónunnar hefur verið að styrkjast hratt vegna þess að fjármagnsinnflæði er leyft en ekki fjármagnsútflæði. Það er kominn tími til þess að meira jafnvægi komist á fjármagnsflutninga. Að það sé opnað fyrir útflæði á móti innflæðinu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Krónan þarf ekki endilega að veikjast

Hann segir að aðgerðirnar muni eflaust hafa einhver áhrif á gengi krónunnar. „Heilt yfir hefur gjaldeyrissköpun hagkerfisins verið það mikil, sérstaklega yfir sumarmánuðina þegar ferðamannastraumurinn er hvað mestur, að gengi krónunnar hefur verið að styrkjast, jafnvel þótt Seðlabankinn hafi lagst á móti fjármagnsinnflæði með gjaldeyriskaupum svo nemi tugum milljarða króna. 

Þannig að það þarf ekki endilega að þýða að veiking krónunnar fylgi losun hafta. Það gæti alveg eins verið að krónan haldist stöðug eða styrkist jafnvel eitthvað.“

Hrafn Steinarsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka.
Hrafn Steinarsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka. mbl.is/Kristinn

Hann bætir því jafnframt við að gjaldeyrisforði Seðlabankans sé orðinn nokkuð stór. Seðlabankinn hafi því bolmagn til þess að grípa inn í og beita forðanum til þess að stuðla að gengisstöðugleika.

Auðveldar fyrirtækjum vöxt

Hrafn segir mjög jákvætt að opnað sé fyrir beina fjárfestingu fyrirtækja erlendis. „Það getur auðveldað þeim vöxt og opnað fyrir tækifæri á alþjóðamörkuðum. Það er mjög jákvætt og má búast við því að fyrirtækin finni fyrir þessu og að þetta liðki fyrir viðskiptum á milli landa.“

Spurður hvort hægt hafi verið að stíga stærri skref til afléttingar hafta segir Hrafn skynsamlegt að ganga hægt um gleðinnar dyr. 

„Þess vegna hefur Seðlabankinn í öllum sínum aðgerðum er varðar losun fjármagnshafta stigið frekar varfærin skref. Það er ágætt að taka bara lítið skref í einu, í rétta átt, og ef vel heppnast er hægt að taka næsta skref,“ nefnir Hrafn.

Það skapi jafnframt trúverðugleika, sem sé mikilvæg forsenda í aðgerðum sem þessum.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra á fundinum í gær. mbl.is/Golli

Líta hagkerfið jákvæðari augum

Hrafn segir að áhugavert verði að fylgjast með viðbrögðum alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjanna. „Ég býst við því að þau muni líta hagkerfið jákvæðari augum ef þessi aðgerð heppnast vel, bæði skref eitt við gildistöku frumvarpsins og síðan skref tvö um áramótin.

Þannig að eftir áramót mætti búast við jákvæðum viðbrögðum frá lánshæfismatsfyrirtækjunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK