Ætla að draga úr losun koltvísýrings

mbl.is/Hjörtur

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög ætla að draga úr losun koltvísýrings við orkuframleiðslu og alla starfsemi fyrirtækjanna.  Þetta kemur fram í loftslagsmarkmiðum OR samstæðunnar sem fela í sér helmingsminnkun kolefnisspors hennar. Samdráttur í útblæstri jarðhitalofts við orkuvinnslu ON á háhitasvæðum vegur þyngst í aðgerðum fyrirtækjanna. Með fjölgun umhverfisvænni farartækja og stuðningi við vistvænni samgöngumáta starfsfólks til vinnu og frá á að draga úr útblæstri af þess völdum um 70-90% fram til ársins 2030. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR.

Þar segir að á meðal annarra aðgerða sem gripið verður til er að   auka endurvinnsluhlutfall útgangs, endurheimta votlendi með því að grafa ofan í skurði á landareignum OR og draga út matarsóun.

Sparar þrjár milljónir tonna af CO2 á ári

Aðgerðir fyrirtækjanna eru í samræmi við loftlagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar sem fyrirtækin skrifuðu undir og var afhent á loftslagsráðstefnunni í París 4. desember sl.

Í tilkynningu OR segir að ef hitaveitnanna sem Veitur og ON bera ábyrgð á nyti ekki við og höfuðborgarsvæðið væri hitað upp með jarðefnaeldsneyti, væri útblástur CO2 á Íslandi tvöfalt það magn sem er í dag. Þessi græna orkuvinnsla sparar andrúmslofti jarðar um þrjár milljónir tonna af CO2 á ári. Svipaða sögu er að segja af raforkuvinnslunni. Ísland er eitt þeirra landa í heiminum sem skilja eftir sig einna minnst kolefnisspor vegna orkuvinnslu. Engu að síður telja OR og dótturfélög að unnt sé að gera betur og er stefnt að því að minnka kolefnisspor rekstursins um helming til ársins 2030.

Niðurdæling og nýting jarðhitalofts sem losnar við orkuvinnslu á háhitasvæðinu við Hengilinn vegur þyngst í markmiðum OR samstæðunnar. Mikill árangur hefur náðst í rannsókna- og þróunarverkefnum við Hellisheiðarvirkjun sem vakið hefur heimsathygli.

Hlýnun jarðar aldrei verið hraðari

 „Ísland er þekkt fyrir hreina orku. Þar skipta hitaveitur Veitna meginmáli og þær geta orðið enn hreinni. Það er líka óþarfi að nota innflutt jarðefnaeldsneyti til samgangna í þeim mæli sem við gerum. Eðli þeirrar þjónustu sem við veitum er þannig að loftslagsmarkmiðin snúa ekki bara að okkur sjálfum. Ef við náum þeim gerum við öðrum líka kleyft að draga úr kolefnisspori sínu,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra OR í tilkynningu.

„Framvinda gróðurhúsaáhrifanna segir okkur að ekki veiti af. Hlýnun jarðar hefur aldrei verið hraðari en í ár. Það skiptir því í raun ekki máli hversu væn og græn við teljum okkur vera nú þegar; við verðum einfaldlega að gera betur – hvert og eitt okkar. Verkefni okkar hjá OR og dótturfyrirtækjunum er því að gera enn betur sjálf og skapa öðrum tækifæri til að gera betur. Orka náttúrunnar er þannig brautryðjandi í uppbyggingu innviða fyrir rafvæðingu samgangna og ætlar sér stærri hluti í þeim efnum. Þar liggur hið stóra sóknarfæri almennings í landinu.“

Við höfuðstöðvar OR á Bæjarhálsi hefur aðstaða fyrir starfsfólk sem ferðast á rafbílum verið stórbætt. Auk hraðhleðslustöðvar frá ON eru þar líka möguleikar til hefðbundinnar hleðslu rafbílanna. Fyrirtækin í samstæðunni leggja áherslu á að gera starfsfólki auðveldara að ferðast með umhverfisvænni hætti til vinnu og frá. Auk aðstöðu fyrir rafbíla býður fyrirtækið starfsfólki upp á samgöngusamninga í þessu skyni sem taka til almenningssamgangna, hjólreiða og göngu. Í þeim felst að starfsmaður skuldbindur sig til að ferðast með umhverfisvænni hætti tiltekinn fjölda daga í hverri viku um nokkurra mánaða skeið og fær fjárstyrk á móti frá fyrirtækinu. Gert er ráð fyrir slíkum hvötum í skattalögum en starfsfólk OR hefur komið því á framfæri við yfirvöld að það telji eðlilegt að samgöngur með rafbílum falli einnig undir ívilnanir stjórnvalda.

OR á langa samfellda sögu í birtingu græns bókhald í umhverfisskýrslu fyrirtækisins. Hún hefur komið út árlega frá aldamótum. Þátttaka í  loftlagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar felur í sér skyldu fyrirtækja til að setja sér einföld markmið um minni losun gróðurhúsaloft. Þeirri vinnu lauk í júní 2016. Markmiðin verða endurskoðuð á fimm ára fresti. Að auki skuldbinda fyrirtækin sig til að mæla árangurinn árlega og birta opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK