Forstjóri Viacom stígur til hliðar

Phillipe Dauman og Deborah, eiginkona hans.
Phillipe Dauman og Deborah, eiginkona hans. AFP

Búist er við því að Philippe Dauman, forstjóri bandaríska fjölmiðlafyrirtækisins Viacom, stígi til hliðar í næsta mánuði eftir harða og oft á tíðum óvægna baráttu um yfirráð fyrirtækisins.

Hann náði nýlega samkomulagi við ráðandi hluthafa í Viacom, Sumner Redstone, en samkvæmt því fær Dauman um 72 milljónir dala, sem jafngildir um 8,4 milljörðum króna, í starfslokagreiðslu.

Áður en Dauman stígur til hliðar er þó reiknað með því að hann selji hlut sinn í Paramount Pictures.

Dauman var áður náinn trúnaðarmaður Redstone, sem er 93 ára að aldri, og vann fyrir hann í um þrjá áratugi.

Í maí á þessu ári kastaðist hins vegar í kekki með þeim. Rak Redstone þá Dauman úr stjórn National Amusements, eignarhaldsfélags sem fer með hlut Redstones í fjölmiðlafyrirtækjunum Viacom og CBS. 

Sumner Redstone.
Sumner Redstone. AFP

Gaf Redstone þá skýringu að hann sætti sig ekki við áform Daumans um að selja eignarhlut í Paramount Pictures.

Dauman heldur því fram að dóttir Redstones, Shari Redstone, hafi átt þátt í því að reka hann úr stjórninni. Hún hafi ráðskast með föður sinn og haft óeðlileg áhrif á hann þegar heilsufari hans fór að hraka. 

Dauman hefur höfðað mál á hendur Redstone. Hann sakar hann um að hafa verið óhæfan til þess að taka ákvörðunina.

Redstone hefur kallað ásakanirnar „fráleitar“.

Thomas Dooley, framkvæmdastjóri hjá Viacom, verður nú tímabundið forstjóri fyrirtækisins, eða þar til 30. september, þegar nýr forstjóri verður ráðinn.

Viacom mun auk þess skipa fimm nýja stjórnarmenn, að ráðleggingu National Amusements, en þeir munu taka ákvörðun um hver verður næsti forstjóri fyrirtækisins.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK