Ekkert tæki má stoppa

„Alls staðar þar sem er ferðaþjónusta þurfa að vera hlutir …
„Alls staðar þar sem er ferðaþjónusta þurfa að vera hlutir eins og uppþvottavél, hnífapör og ofnar, fólk kemst ekki hjá því,“ segir Guðmundur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar síðustu ár hefur varla farið framhjá mörgum. Ferðaþjónustan teygir anga sína víða og eru það ekki bara ferðaskrifstofurnar og hótelin sem græða á síaukinni komu erlendra ferðamanna hingað til lands.

Bako Ísberg ehf. sinnir nánast öllum þeim búnaði sem veitingageirinn þarf, allt frá teskeiðum upp í innréttingar og allt þar á milli. Milli áranna 2014 og 2015 jukust tekjur fyrirtækisins um 60% og er það að mestu leyti rekið til ferðaþjónustunnar.

Árin eftir hrun gríðarlega erfið

Framkvæmdastjóri Bako Ísbergs, Guðmundur Kr. Jónsson, segir ferðaþjónustuna færa með sér vaxandi kúnnahóp innan hótel- og veitingahúsabransans. Bako Ísberg var stofnað árið 1990 og segir Guðmundur tekjurnar hafa verið nokkuð sveiflukenndar milli ára. „Árin eftir hrun voru til að mynda gríðarlega erfið. Við lifðum þau af en því miður ekki er hægt að segja það sama um öll fyrirtæki í okkar geira. En nú eru tekjurnar að aukast töluvert og við finnum fyrir því að það tengist vexti ferðaþjónustunnar.“

Fyrirtækið skaffar einnig hönnunarráðgjöf og getur komið inn í hvert verkefni á grunnstigi. „Við erum með 4-5 manna verkstæði sem setur upp tæki en heldur þeim einnig við. Mesta breytingin er líklega í þjónustuþættinum. Nú er spennan er svo mikil, ekkert tæki má stoppa,“ segir Guðmundur.

Bako Ísberg ehf. sinnir nánast öllum þeim búnaði sem veitingageirinn …
Bako Ísberg ehf. sinnir nánast öllum þeim búnaði sem veitingageirinn þarf, allt frá teskeiðum uppí innréttingar og allt þar á milli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komast ekki hjá því að vera með hnífapör

Meðal viðskiptavina Bako Ísbergs er Bláa lónið, Icelandair-hótelin og Hótel Saga. Þá þjónusta þau líka veitingastað IKEA og þó hann tengist ekki beint ferðaþjónustu bendir Guðmundur á að hann sé einn stærsti veitingastaður landsins og þörfin á tækjum og þjónustu eftir því.

Guðmundur segir ótrúlegt að fylgjast með fjölgun kúnnanna og nefnir þar Bláa lónið sem dæmi. „Vöxturinn þar er með ólíkindum. Við erum nú að vinna með þeim í nýja hótelinu þeirra sem verður fimm stjörnur. Þá þurfum við að vera til taks hvenær sem er,“ segir hann og bætir við að hann sjái aukningu í nýjum veitingastöðum og hótelum allan hringinn í kringum landið. „Alls staðar þar sem er ferðaþjónusta þurfa að vera hlutir eins og uppþvottavél, hnífapör og ofnar, fólk kemst ekki hjá því.“

Guðmundur sér fram á áframhaldandi vöxt á fyrirtækinu enda er verkefna- og kúnnalistinn langur. Hann segir fyrirtækið reyna eftir bestu getu að sinna öllum og að biðtími verði sem stystur.

Bako Ísberg ehf. sinnir nánast öllum þeim búnaði sem veitingageirinn …
Bako Ísberg ehf. sinnir nánast öllum þeim búnaði sem veitingageirinn þarf, allt frá teskeiðum upp í innréttingar og allt þar á milli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þörf á fleira fagfólki

Alls starfa ellefu manns hjá fyrirtækinu og stendur til að bæta í hópinn. Guðmundur segir að Bako Ísberg leggi áherslu á að vera með fagfólk í vinnu og bendir á að þau séu með þrjá matreiðslumenn í sölu. Þá er tæknideildin aðeins samsett af menntuðum rafvirkjum. „Við erum að reyna að stækka tæknideildina en það vantar góða fagmenntaða rafvirkja. Við erum nýlega búin að taka inn nýjan sölumann í borðbúnaðardeildina en ég sé fram á að við þurfum að fjölga stöðugildum.“

Guðmundur segir almennt vel staðið að hótel- og veitingageiranum hér á landi, þrátt fyrir þennan hraða vöxt. „Við finnum að margir eru að gera þessa hluti vel og að fagmennskan er uppistaðan. Þó eru alltaf einhverjir inni á milli sem eru að fleyta rjómann.“

Þá segir hann ríka þörf á að fleiri mennti sig í þessum geira. „Það þarf fleira fagfólk. Það verður erfitt   að viðhalda gæðum án þess að veruleg fjölgun fagmenntaðs fólks komi til. Það er eins og þegar kemur að því að velja námsleiðir þá sé það ekki álitlegur valkostur að mennta sig til t.d. framleiðslumanns, bakara eða matreiðslumanns. En fólk þarf ekki annað en að opna augun og sjá að fjölmargir sem lært hafa þessi fög eru efnað fólk í dag og njóta þess að starfa á þessum vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK