Tímasetningin ágætlega vel heppnuð

Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.
Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Ljósmynd/Arion banki

Áhrifa af vaxtalækkun Seðlabankans fyrr í dag ætti að gæta mjög fljótlega á markaði með skammtímafjármögnun. Þetta á meðal annars við um stóran hluta af fjármögnun fyrirtækja sem er til skamms tíma. Þá ætti vaxtalækkunin líka að skila sér að öðru óbreyttu í breytilega vexti húsnæðislána. Þetta segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, í samtali við mbl.is.

Stefán bendir á að ákvörðunin hafi strax haft áhrif á ríkisskuldabréf og hlutabréfamarkaðinn og það sé til marks um að menn hafi ekki átt von á þessu núna. Segir hann lækkunina núna vera tímabæra eftir að verðbólga hefur verið innan verðbólgumarkmiðs í langan tíma.

Þótt vaxtalækkun geti haft áhrif á vexti fasteignalána til lengri tíma segir Stefán að setja verði þetta í samhengi við eignaverð líka. Samhliða vaxtalækkun lækkar ávöxtunarkrafa og eignaverð hækkar. Þetta sjáist ágætlega á verðbréfamarkaðinum í dag. Því sé líklegt til lengri tíma að vaxtalækkun hækki fasteignaverð, þótt fasteignalánsvextir gætu lækkað.

Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun sagði aðalhagfræðingur hans að þrátt fyrir hækkandi húsnæðisverð teldi hann ekki fasteignabólu vera í gangi. Þannig væri útlánaaukning til fasteignafjárfestinga ekki að aukast mikið.

Stefán segist aðspurður um þessi orð vera sammála aðalhagfræðingnum og að þótt að aukning hafi verið á fyrsta ársfjórðungi í útlánum til fasteignakaupa sjái hann ekki bólumyndun þar. Segir hann hækkun fasteignaverðs fyrst og fremst drifna áfram af framboðsaukningu. Segir Stefán að framboð fasteigna sé nú byrjað að aukast sem ætti að koma eitthvað til móts við hækkandi verð.

Hann segir að tímasetning vaxtalækkunarinnar í dag sé ágætlega heppnuð og í raun megi Seðlabankinn klappa sér á bakið fyrir það hvernig tekist hefur að viðhalda verðstöðugleika undanfarin misseri. Þá hafi einnig tekist að byggja upp myndarlegan gjaldeyrisvaraforða sem gefi færi á að tryggja frekari stöðugleika til framtíðar. Segir hann að spyrja mætti sig hvað hefði gerst ef vextir hefðu verið lækkaðir fyrir ári síðan. Það hefði t.d. getað haft talsverð áhrif á eignaverð og þar af leiðandi ýtt undir frekari hækkun húsnæðis.

Hann tekur þó fram að þau hjá greiningardeildinni séu ánægð með þetta skref núna og þá breytingu í tón peningastefnunefndar um að vextir í framtíðinni geti bæði lækkað og hækkað, en áður hafði verið nokkuð neikvæður tónn sem menn túlkuðu frekar til vaxtahækkunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK