Leikarinn Dwayne Johnson er á toppi lista tímaritsins Forbes yfir hæst launuðu leikarana. Johnson þénaði 64,5 milljónir bandaríkjadala á síðasta ári, andvirði 7,5 milljarða íslenskra króna. Tæpum 2,3 milljörðum munar á árslaunum Johnsons og hæst launuðu leikkonunnar, Jennifer Lawrence.
Tekjur Johnsons, sem er iðulega þekktur undir nafninu The Rock, rúmlega tvöfölduðust milli ára og er það vegna hlutverka hans í Fast and the Furious myndunum og stórslysamyndinni San Andreas.
Johnson var í öðru sæti listans á síðasta ári en nú kom hann Robert Downey Jr. úr toppsætinu eftir þrjú ár þar í röð.
Listar Forbes, sem sýna hæst launuðu karl- og kvenleikarana sýna vel launamuninn á kynjunum í Hollywood. Tekjur Lawrence á síðasta ári voru aðeins 72% af tekjum Johnsons, sem er aðeins minna en meðallaunamunurinn milli hvítra karla og kvenna í Bandaríkjunum sem þéna meðallaun.
Átján leikarar á listanum þénuðu meira en 20 milljónir bandaríkjadala, eða 2,3 milljarða. Þar á meðal er Jackie Chan sem var í öðru sæti með 61 milljón bandaríkjadala í árstekjur. Þá var Matt Damon í þriðja sæti með 55 milljónir bandaríkjadala. Tom Cruise var í fjórða sæti og Johnny Depp í því fimmta.
Lawrence vermir sjötta sætið en hún þénaði 46 milljónir bandaríkjadala eða um 5,4 milljarða á síðasta ári. Hún var ofar á listanum en karlstjörnurnar Ben Affleck og Vin Diesel.
Lawrence tjáði sig á síðasta ári um launamun kynjanna og óréttlætið sem fylgir því að fá lægri laun en „heppið fólk með typpi“. Tjáði Lawrence sig eftir að það sást hversu lægri laun Lawrence fékk en karlmeðleikarar hennar í myndinni American Hustle, en það kom í ljós í kjölfar árásar tölvuhakkara á kvikmyndaframleiðandann Sony.
Sú kona á listanum sem er með næsthæst laun er Melissa McCarthy með 33 milljónir bandaríkjadali í tekjur á síðasta ári.
Listinn gefur líka til kynna að eldri konum sé mismunað þegar kemur að launum. 95% launahæstu karlanna á listanum eru eldri en 40 ára en helmingur kvennanna.