Samskip hafa gengið frá kaupum á norska flutningafyrirtækinu Euro Container Line AS (ECL). Kaupin eru í takt við áform Samskipa um vöxt á þessu markaðssvæði og um leið stærstu kaup félagsins í Noregi frá upphafi, samkvæmt fréttatilkynningu frá Samskipum.
Heildarflutningsmagn Samskipa í Noregi vex umtalsvert eða úr 55.000 gámaeiningum (TEU) í 90.000 gámaeiningar sem eykur heildarflutningsmagn félagsins úr 850.000 gámaeiningum í 885.000 gámaeiningar á ári, samkvæmt tilkynnignu.
Með kaupunum eykst frystiflutningsgeta Samskipa á milli Noregs og meginlands Evrópu um 275 til 300 frystigámaeiningar í viku hverri og tengir frystigeymslur félagsins í Álasundi og Rotterdam.
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir í tilkynningu að samningaviðræður milli félaganna hafi verið leiddar af Ólafi Ólafssyni, aðaleiganda Samskipa, og Kristian Eidesvik fyrir hönd ECL.
„Þessi kaup renna frekari stoðum undir áform Samskipa um að styrkja stöðu sína í Noregi og koma í framhaldi af kaupum félagsins á 50% hlut í Silver Green AS. Við getum nú boðið sjávarútveginum í Noregi betri þjónustu, sambærilega þeirri sem við höfum veitt um áratuga skeið á Íslandi og í Færeyjum.“
Kaupin á ECL koma í kjölfar kaupa Samskipa á helmingshlut í Silver Green í Bergen í Noregi sem rekur 14 frystiskip og er leiðandi á þeim markaði. Helstu markaðssvæði þeirrar starfsemi er Norður-Atlantshafið, Eystrasalt, Norðursjór og Svartahaf. Fimm frystiskipanna eru í eigu Samskipa.
Samskip eru með starfssemi á 55 stöðum í 24 löndum með um 1.400 starfsmenn og velta tæplega 90 milljörðum á ári.
Velta Samskipa eykst um u.þ.b 10 milljarða króna við kaupin á ECL.
Stjórnendateymi Samskipa samanstendur af Ásbirni Gíslasyni, Kristni Albertssyni, Jens Holger Nielsen og Pálmari Óla Magnússyni.
Kaupin eru fjármögnuð af félaginu og með seljendaláni að hluta. Kaupverð er trúnaðarmál.