Íslandsbanki gefur út 65 milljarða skuldabréf

Íslandsbanki
Íslandsbanki mbl.is/Hjörtur

Íslandsbanki hefur gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra, eða sem nemur 65 milljörðum króna, til fjögurra ára. Bréfið ber 1,75% fasta vexti, sem jafngildir 200 punkta álagi yfir millibankavexti í evrum.

Rúmlega tvöföld umframeftirspurn var eftir útgáfunni sem var seld til fjölbreytts hóps fjárfesta frá Bretlandi, Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllina á Írlandi þann 7. september 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Segir þar að útgáfan lengi endurgreiðsluferil bankans og lækki fjármögnunarkostnað. Til stendur að nýta hluta útgáfunnar til að  fyrirframgreiða útistandandi skuldir, þar með talið víkjandi skuldabréf að upphæð 138 milljónir evra á gjalddaga 2019. Miðað við fjárhagstölur í lok júní 2016, munu viðskiptin leiða til lækkunar á eiginfjárhlutfalli bankans úr 28.9% í 27.1%, sem er eftir sem áður töluvert yfir kröfum eftirlitsaðila.

Umsjónaraðilar útboðsins voru Bank of America Merrill Lynch, Citigroup, Deutsche Bank AG, JP Morgan og DNB.

Útgáfan er þriðja skuldabréfaútgáfa Íslandsbanka í evrum og jafnframt þriðja erlenda skuldabréfaútgáfa bankans á árinu 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK