Mikil hækkun kom skemmtilega á óvart

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífins. mbl.is/Styrmir Kári

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir tveggja þrepa stökk ríkissjóðs í nýju lánshæfismati Moody‘s koma skemmtilega á óvart. „Þó svo að við teljum að hækkun á lánshæfiseinkun ríkissjóðs í A-flokk sé svo sannarlega verðskulduð, bæði út frá góðri stöðu ríkissjóðs og verulega jákvæðri efnahagsþróun hér heima, kom það okkur á óvart að hækkunin gerðist í einu skrefi og er það mjög ánægjulegt,“ segir Ásdís.

Frétt mbl.is: Moody's hækkar lánshæfi ríkissjóðs

Spurð út í áhrifin segir hún að aðgengi ríkisins að erlendum mörkuðum muni vænkast enn frekar og ætti það að skila sér í hagstæðari kjörum ríkissjóðs. Þá er viðbúið að batnandi lánshæfi ríkisins muni skila sér að öðru óbreyttu til íslenskra fyrirtækja á borð við viðskiptabankana og Landsvirkjun í bættum vaxtakjörum á erlendum mörkuðum.

„Batnandi lánshæfi ríkisins eykur trúverðugleika landsins og ætti að leiða til þess að erlend vaxtakjör bæði ríkis og innlendra fyrirtækja á erlendum mörkuðum batni,“ segir hún.

Að sögn Ásdísar hafa vaxtakjörin batnað verulega í erlendum útgáfum síðustu ár, bæði hjá ríkinu og einnig í erlendum útgjáfum hjá viðskiptabönkunum, og er viðbúið að eftir tíðindi gærdagsins verði kjörin enn hagstæðari.

„Áhugavert verður að sjá á hvaða kjörum ríkið getur fjármagnað sig þegar farið verður í næstu erlendu útgáfuna,“ segir hún. „Batnandi lánshæfi endurspeglar hversu sterk staðan er orðin í íslensku hagkerfi, þá eru efnahagshorfur góðar, ríkissjóður áformar að skila afgangi á rekstri sínum á komandi árum, skuldir ríkisins hafa lækkað og gert er ráð fyrir þær muni lækka enn frekar á næstu árum.“

Segir hún að farsæl lausn slitabúa föllnu bankanna auk trúverðugrar áætlunar til losunar hafta hafi mikið að segja. Út frá undirliggjandi þáttum sé alveg ljóst að gjaldeyrishöftin hafi verið dragbítur í lánshæfismati ríkissjóðs, nú sjái lánshæfisfyrirtækin að haftalosunin sé hafin í skrefum og séu að bregðast við því. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK