Hjónin Ólafur Magnússon og Inga Sóley Jónsdóttir frá Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu eru meðal fjárbænda sem ákváðu að reyna sjálf að selja kindaskrokka beint til almennings í ljósi mikilla verðlækkana hjá afurðastöðvum sem kynntar voru í síðasta mánuði. Með því að sleppa milliliðnum geta bændur fengið allt að 50-90% hærra verð fyrir skrokkinn að sögn Ólafs.
Um helgina auglýstu hjónin sölu á heilum eða hálfum skrokkum fyrir 1.200 krónur kílóið á Facebook-síðunni Brask og brall. „Við settum þetta bara inn upp á grínið og sjá hvað kæmi út úr þessu,“ segir Ólafur, en viðtökurnar hafa að hans sögn verið ótrúlega góðar. Segir hann að í gær hafi hrúgast inn pantanir.
„Þetta er pínu meira umstang, en við ákváðum að prófa að fara þessa leið núna,“ segir Ólafur. Almenna leiðin hefur verið að fara með féð í sláturhús þar sem afurðastöðvarnar taka við kjötinu að slátrun lokinni. Með því að fara með kjötið í sláturhús og fá það svo til baka og selja það sjálfur segir Ólafur að farið sé eftir öllum reglum og bændur geti fengið hærra verð. „Þetta kemur beint vottað frá sláturhúsi, fæ það tilbúið pakkað og sama kjöt og þú færð út úr búð,“ segir hann.
Ólafur segir að fjölmargir bændur hafi farið þessa leið í haust þegar tilkynnt var um verðlækkunina, en Sláturhús SAH afurða á Blönduósi lækkaði verð til bænda t.d. um 12%. Aðrar afurðastöðvar voru með svipaðar lækkanir.
Venjulegt verð sem bændur fá frá afurðastöðvum fyrir skrokk eftir slátrun er að sögn Ólafs um 10-12 þúsund krónur. Með því að selja kjötið beint frá býli segir hann að hann geti fengið frá 15-19 þúsund krónur fyrir skrokkinn. Það er því um 50-90% hækkun m.v. verð frá afurðastöðvum.
Segir hann að miðað við umræðuna þá hefði hann haldið að þetta væru góðar fréttir fyrir afurðastöðvarnar. Þar sé talað um að mikið safnist upp af kjöti, en með þessari leið þurfi þeir minna að selja.
Hann segir fólk almennt jákvætt fyrir þessari leið og þá sérstaklega að vita hvaðan kjötið kemur. Búið er að smala öllu fé saman hjá hjónunum, en seinni réttir voru um síðustu helgi. Segir Ólafur að féð líti vel út og komi mjög fínt af fjalli.