Fyrsta Krispy Kreme búðin hér á landi verður opnuð í Hagkaup í Smáralind þann 5. nóvember en Krispy Kreme Inc. og Hagar hf hafa nú undirritað samstarfssamning. Nú þegar starfrækir kleinuhringjarisinn verslanir í um 25 löndum með yfir 1.100 útibúum og hefur Ísland því loks bæst í þennan stóra hóp, fyrst Norðurlandaþjóða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þar segir að starfsmenn Krispy Kreme baki kleinuhringi frá grunni á hverjum degi og skreyta og verður því boðið upp á ferska kleinuhringi daglega. Einnig hafa kaffisérfræðingar Te&Kaffi ásamt Krispy Kreme á Íslandi, framleitt hágæða kaffiblöndu sem verður einungis í boði á Krispy Kreme.
Fyrri frétt mbl.is: Ræða við Krispy Kreme
Fyrri frétt mbl.is: Uppskriftin geymd í læstu öryggishólfi
„Þetta er stórskemmtileg viðbót í verslanir okkar og við erum afskaplega ánægð með að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa nýjung strax í byrjun nóvember,” er haft eftir Gunnari Inga Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Hagkaups í tilkynningu.
„Það gleður mig mikið að fá það verkefni að kynna Krispy Kreme fyrir Íslendingum,” er síðan haft eftir Viðari Brink, rekstarstjóra Krispy Kreme á Íslandi. „Ég og okkar frábæra starfsfólk hlökkum til að taka á móti ykkur með bros á vör og leyfa ykkur að smakka hina frægu Krispy Kreme.“
Krispy Kreme var stofnað í Bandaríkjunum árið 1937, af Vernon Rudolph og eru í dag með yfir 1.100 útibú í meira en 25 löndum m.a. Ástralíu, Afríku, Suður-Ameríku og Asíu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Winston-Salem, Norður-Karólínu og er fyrirtækið skráð á markað Nasdaq: KKD. Original Glazed kleinuhringurinn hefur ekki breyst síðan hann var fyrst búin til árið 1937. Uppskrift hans hefur aldrei verið gefin út og er því leyndarmál.