Hagnaður af rekstri Bláa Lónsins hf. nam 15,8 milljónum evra eða rétt rúmum tveimur milljörðum íslenskra króna á síðasta ári samkvæmt rekstrarreikningi. Það er aukning um 4,2 milljónir evra eða 540 milljónir króna milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði eða BEITDA nam 21,3 milljónum evra eða 39% af veltu.
Eigið fé í lok ársins nam 39,9 milljónum evra eða 52% af heildarfjármagni.
Í skýrslu stjórnar Bláa Lónsins hf. í ársreikningi kemur fram að framkvæmdum við byggingu hágæða hótels og spa við Bláa Lónið standi nú yfir og miði vel. Áætlað er að þeim ljúki á næsta ári.
Þar segir einnig að á árinu hafi hlutafé félagsins verið aukið um 80 milljónir króna og er því hlutafé félagsins 880,5 milljónir króna. Fjöldi hluthafa í lok síðasta árs er 51 og fækkaði þeim um sjö á árinu.
Stærstu hluthafar í félaginu í árslok eru Hvatning slhf. með 39,1%, HS Orka hf. með 30% og Keila hf. með 9,2%.
Dótturfélög Bláa Lónsins eru sex talsins, Blue Lagoon Clinic ehf., BLUE LAGOON international ehf., Blue Lagoon Travel ehf., Eldvörp ehf., Hótel Bláa Lónið ehf. og Íslenskar heilsulindir ehf.