Kolefnisgjald 80% of lágt til að vernda loftslagið

Kolefnisgjald sem ýmis ríki hafa tekið upp er ekki nógu …
Kolefnisgjald sem ýmis ríki hafa tekið upp er ekki nógu hátt til þess að skila árangri til að vernda loftslag jarðar. AFP

Gjald sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings er um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar. Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) kemur fram að kolefnisgjald á 90% losunar þjóða sé undir lágmarksviðmiði og að ekkert gjald sé lagt á full 60% losunarinnar.

Kolefnisgjald þarf líklega að hækka í að minnsta kosti 30 evrur á tonn samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar sem byggist á greiningu á sex tegundum iðnaðar í 41 ríki. Ef fleiri þjóðir myndu leggja frekari metnað í að rukka fyrir mengun til að jafnast á við miðgildi ríkjanna mætti brúa bilið upp í þá upphæð um 53% samkvæmt frétt Bloomberg af skýrslunni.

„Ef allir legðu meira af mörkum þannig að þeir jafnist á við miðgildi landanna þá myndi það breyta miklu,“ segir David Bradbury, forstöðumaður skattastefnu- og tölfræðisviðs OECD við Bloomberg. 

Skýrslan er sögð tilraun til þess að sýna ríkjum fram á að þau geti sett sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum án þess að skaða hagkerfi sín í samanburði við önnur lönd. Hún náði til þeirra ríkja sem standa fyrir 80% af losun mannkynsins á gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum, þar á meðal Bandaríkjanna, Kína, Evrópu og Brasilíu.

Kolefnisgjald og markaður með losunarheimildir fyrir fyrirtæki eru á meðal leiða sem lagðar hafa verið til svo draga megi úr losun manna á gróðurhúsalofttegundum og forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Með þeim hætti verði þeir sem standa fyrir losuninni látnir greiða fyrir mengunina sem þeir valda.

Í frétt Bloomberg er hins vegar bent á að verð á losunarheimildum í Evrópu hafi farið niður í 3,87 evrur fyrstu vikuna í þessum mánuði og hafði það ekki verið lægra í tvö ár. Verðið hafi verið 4,51 evrur í gær.

Samkvæmt skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem birtist á föstudag hafi markaði með kolefnislosunarheimildir ekki tekist að drífa áfram fjárfestingu í vistvænni tækni.

Kolefnisgjald var tekið upp á Íslandi árið 2009 en var lækkað um eitt prósentustig í byrjun árs 2014.

Frétt Bloomberg af skýrslu OECD

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK