John Stumpf, bankastjóri bandaríska bankans Wells Fargo mun ekki þiggja bónusa upp á 41 milljón bandaríkjadala, jafnvirði 4,6 milljarða íslenskra króna, vegna hneykslismálsins sem skekur bankann þessa dagana.
Bankinn rannsakar nú hvernig tvær milljónir bankareikninga voru opnaðir án leyfis viðskiptavina. Í tilkynningu bankans segir að Stumpf muni ekki fá laun á meðan málið er í rannsókn.
Þá hefur fyrrverandi sölustjóri bankans, Carrie Tolstedt, gefið frá sér bónusa upp á 19 milljónir bandaríkjadala en hún hætti hjá bankanum vegna málsins án þess að fá lokagreiðslu.
Stumpf kemur fram fyrir fjármálanefnd bandaríska þingsins á fimmtudaginn þar sem gert er ráð fyrir að hann verði látinn svara erfiðum spurningum eins og í síðustu viku þegar hann kom fram fyrir bankanefnd þingsins. Þar hvatti þingkonan Elizabeth Warren Stumpf til þess að segja af sér.
Búið er að reka rúmlega 5.000 starfsmenn bankans eftir að málið kom upp og bankinn var sektaður um 185 milljónir bandaríkjadali.