Fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins var stofnaður í dag með sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs, en sameiningin var staðfest á aukaársfundi síðdegis. Í kjölfarið var haldinn stofnfundur nýja sjóðsins þar sem nafn hans var kynnt, Birta lífeyrissjóður.
Nýi sjóðurinn verður með yfir 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign upp á um 310 milljarða króna, sem er um tíundi hluti heildareigna allra lífeyrissjóða landsins.
Tíu manna stjórn Birtu var kynnt á stofnfundinum. Meðal fyrstu verkefna hennar er að ráða framkvæmdastjóra nýja lífeyrissjóðsins, finna sjóðnum húsnæði til framtíðar og undirbúa fyrstu skrefin að öðru leyti. Stefnt er að því að starfsemi í nafni Birtu lífeyrissjóðs hefjist fyrir lok ársins, undir sama þaki.
Fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum að í baklandi lífeyrissjóðanna (samtökum atvinnurekenda og launafólks) sé yfirlýst stefna að hagræða enn frekar í lífeyriskerfinu með því að fækka sjóðum og stækka þá og styrkja með sameiningum. Það þarf til að mynda stóra og öfluga sjóði til að standa undir sífellt meiri kröfum til sérhæfingar af ýmsu tagi.
Viðræður um sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa hófust í byrjun maí 2016. Gert er ráð fyrir að sameiningin miðist við stöðu sjóðanna í byrjun árs 2016 en að ávinnsla réttinda í nýja sjóðnum hefjist 1. janúar 2017. Við ársuppgjör 2015 kom í ljós að meðalávöxtun beggja sjóða síðastliðin fimm ár var nákvæmlega sú sama eða 6%. Ávöxtun eigna fyrstu sex mánuði ársins 2016 var nánast sú sama líka, þar munaði 0,1%!
Sameinaði lífeyrissjóðurinn varð til í ársbyrjun 1992 með sameiningu Lífeyrissjóðs byggingarmanna og Lífeyrissjóðs málm- og skipasmiða. Síðar bættust við lífeyrissjóðir bókagerðarmanna, garðyrkjumanna, múrara, verkstjóra og fleiri.
Stafir lífeyrissjóður varð til við samruna Samvinnulífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Lífiðnar í ársbyrjun 2007. Til Stafa greiða starfsmenn fyrirtækja sem áður tilheyrðu Sambandi íslenskra samvinnufélaga og félagsmenn í Rafiðnaðarsambandi Íslands og Matvæla- og veitingafélagi Íslands.