Kaffitár verður opnað í Perlunni

Kristbjörg segir að í Kruðerínu sé sérstaklega mikið lagt upp …
Kristbjörg segir að í Kruðerínu sé sérstaklega mikið lagt upp úr gæðunum og eins mikið og hægt er fengið beint frá býli. Þá er allt gert frá grunni og íslenskt hráefni notað þar sem það er hægt Ljósmynd/Kaffitár

Veitingastaður og kaffitería Perlunnar munu hætta starfsemi um áramótin og mun Kaffitár koma í staðinn. Breytingarnar tengjast fyrirhugaðri náttúrusýningu í Perlunni en fyrsti áfangi hennar opnar á vormánuðum næsta árs.

Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs, segir að á nýja staðnum verði bæði hægt að fá úrvals kaffi og veitingar framleiddar af Kruðeríi Kaffitárs. 

Hún segir jafnframt að Kaffitár sé stöðugt að skoða leiðir til þess að færa út kvíarnar og til að mynda opnaði Kruðerí Kaffitárs nýlega við Stórhöfða. 

Kristbjörg Edda segir mikla ánægju meðal viðskiptavina að Kaffitár hafi ákveðið að sinna úthverfum borgarinnar en fyrir er Kruðerí við Nýbýlaveg. 

Kruðerí Kaffitárs var stofnað fyrir þremur árum, þá fyrst og fremst til þess að geta skaffað Kaffitári betri veitingar. „Við höfðum verið að bjóða upp á úrvalskaffi í öll þessi ár en fannst vanta upp á gæðin í meðlætinu,“ segir Kristbjörg Edda aðspurð um Kruðerí-ið.

„Við sáum þarna tækifæri á markaðinum, bæði til þess að auka úrvalið á kaffihúsunum en einnig í bakarísmarkaðinum þar sem okkur fannst vanta heilmikið upp á gæðin þar almennt.“

Ljósmynd/Kaffitár

Kristbjörg segir að í Kruðerínu sé sérstaklega mikið lagt upp úr gæðunum og eins mikið og hægt er fengið beint frá býli. Þá er allt gert frá grunni og íslenskt hráefni notað þar sem það er hægt.

Hún segir viðtökurnar við nýja staðnum framar öllum vonum og segir fólk ánægt að sjá fyrirtæki sinna úthverfunum, þ.e. á Nýbýlavegi og nú í Stórhöfða. Hún segir það þó ekki ákveðin stefna Kruðerísins að vera aðeins í út- og iðnaðarhverfum og sleppa t.d. miðbænum.

„En þarna sáum við vöntun,“ segir Kristbjörg og bætir við að að næstu skref séu stöðug í skoðun. „Við útilokum alls ekki að opna á Kruðerí á fleiri stöðum en tökum eitt skref í einu.“

Ljósmynd/Kaffitár
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK