„Reyndu að fá til þín iðnaðarmann“

,Fjárstreymistækinu fylgja hliðarverkanir. Þetta eru inngrip í markaði og oftast …
,Fjárstreymistækinu fylgja hliðarverkanir. Þetta eru inngrip í markaði og oftast eru þau óæskileg,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rangir útreikningar Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs höfðu sáralítil áhrif á ákvarðanir peningastefnunefndar um stýrivexti síðustu mánuði. Hagstofan þarf þó að skoða vel hvað fór úrskeiðis við mat á vísitölu neysluverðs.

Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann Seðlabankann ekki hafa íhugað ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ákvarðanir nefndarinnar séu byggðar á röngu mati Hagstofunnar.

„Auðvitað var þetta mjög óheppilegt, og ég vona náttúrulega að Hagstofan skoði þetta mjög vel, og ég veit hún mun gera það.“

Frétt mbl.is: Um mannleg mistök að ræða

„Ég veit ekki hvort stjórnvöld þurfi að hafa í huga mikilvægi þess að Hagstofan hafi þau tól, tæki og mannskap sem þarf til að sinna sínu þýðingarmikla starfi, vegna þess að við byggjum á talnagrunni hennar og það er mjög mikilvægt að hann sé eins réttur og mögulegt er.“

Man ekki eftir eins stöðu á sínum ferli

Þá segir Már að matið hafi vart haft teljandi áhrif á ákvarðanir nefndarinnar.

„Síðasta ákvörðun okkar, í ágúst, er tekin áður en mesta skekkjan kemur fram, í ágústmælingunum,“ segir Már og bætir við að þegar nefndin taki ákvarðanir sínar, þá horfi hún ekki endilega á verðbólguna eins og hún er á þeim tíma.

„Það sem meira máli skiptir er að gengi krónunnar hafði verið að styrkjast og líkur voru á að á því yrði framhald, eins og nú er komið í ljós. Og svo hitt, sem skipti auðvitað sköpum, að verðbólguvæntingar á nánast alla mælikvarða voru orðnar í samræmi við verðbólgumarkmiðið.

Það er það sem þetta gengur allt út á, að halda verðbólguvæntingum þar, svo ákvarðanir á vinnumarkaði geti miðast við að verðbólgan verði 2,5 prósent. Við reynum að efna það loforð, þrátt fyrir að auðvitað verði sveiflur í verðbólgu til skamms tíma. Þetta er það sem markaðurinn er að vænta og er því mjög mikilvægt. Ég man ekki eftir þessari stöðu, á öllum mínum ferli.“

Byggingakranar við Urriðaholt. Líkur eru á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum, …
Byggingakranar við Urriðaholt. Líkur eru á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum, segir Már. mbl.is/Árni Sæberg

„Sjáðu hvernig það gengur“

Í kynningu sinni á ákvörðun peningastefnunefndarinnar sagði Már meðal annars að lík­ur væru á vax­andi spennu í þjóðarbú­skapn­um. Spurður hvað leikmenn geti ráðið úr þessu svarar hann því til, að vart sé til meira vinnuafl í landinu.

„Meiri umsvif kalla því annað hvort á launaskrið og spennu, eða þá að flutt verður inn vinnuafl. Síðan sjáum við á eignamörkuðum, sérstaklega fasteignamarkaði, að þar ríkir nokkur spenna. Verð á fasteignum hefur hækkað verulega og það má ekki gleyma því að leiðréttingin hjá Hagstofunni er einmitt þar, í húsnæðisliðnum, sem er þá núna kominn í árstakt í tveggja stafa tölu.

Og svo er það þetta sem allir sjá. Byggingakranar úti um allt. Verð í verktöku að hækka. Reyndu að fá til þín iðnaðarmann og sjáðu hvernig það gengur.“

Verður styrking eftir losun hafta?

Verðbólga mælist nú 1,8 stig en Már segist búast við því að hún muni áfram leita upp á við.

„Við vorum búin að spá því að verðbólgan myndi skríða upp í markmiðið, í rás ársins, en þar erum við ekki komin enn. Þá á enn eftir að koma í ljós hvort, eða hversu mikið, framhald verði á styrkingu krónunnar eftir að við stígum þessi stóru skref í losun haftanna.

Við eigum eftir að sjá hvernig því vindur fram og það getur haft töluverð áhrif á verðbólguna, til skemmri og miðlungslangs tíma. Til langs tíma á peningastefnan auðvitað að geta látið verðbólguna vera í 2,5 prósentum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka