Björn Ingi Hrafnsson, eignadi Vefpressunnar, verður með þáttinn sinn Eyjuna á ÍNN sem var lengi á Stöð 2. Í gær var greint frá því að Vefpressan væri að kaupa ÍNN og staðfestir Björn Ingi það í samtali við Morgunblaðið.
„Það er erfitt að reka fjölmiðla á Íslandi og þegar við bætist að vitlaust er gefið þá er ekki skrýtið að menn leiti allra leiða til hagræðingar,“ segir Björn Ingi.
Fyrri frétt mbl.is: Pressan yfirtekur ÍNN
„Hugmyndin er að halda áfram því góða starfi sem Ingvi Hrafn hefur staðið fyrir. Ég verð þarna með þáttinn minn Eyjuna. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að nýta samlegðaráhrif milli þeirra fjölmiðla sem við rekum.“ Hann segir mikið af fjölmiðlafólki við störf á fjölmiðlum tengdum Vefpressunni.
„Það getur þá mögulega tekið þátt í þeirri dagskrárgerð sem þarna er. Við fikrum okkur áfram með það í rólegheitum á næstunni.“ Hann segir að fyrir hafi legið í nokkurn tíma að sjónvarpsstöðin væri til sölu.
„Á endanum náðum við saman og það er fagnaðarefni.“
Björn Ingi segir að samkomulag hafi orðið um að trúnaður sé um kaupverðið.
Tilkynnt hefur verið um yfirtöku Vefpressunar á ÍNN til fjölmiðlanefndar.