Miklar breytingar munu verða á þeirri starfsemi sem Korputorg hýsir þar sem móðurfélag innflutnings- og framleiðslufyrirtækisins Íslensk-Ameríska (Ísam) hefur fest kaup á húsnæðinu og hyggur á að flytja alla starfsemi Ísam í það á komandi árum.
Um er að ræða eitt stærsta atvinnuhúsnæði landsins og er það 45.550 fermetrar að stærð. Til samanburðar er Smáralindin ríflega 62 þúsund fermetrar.
Í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Ísam, að mikil tækifæri felist í því að koma starfsemi fyrirtækisins undir eitt þak en í dag eru rekstrareiningar þess á mörgum mismunandi stöðum í borginni. Má þar meðal annars nefna skrifstofur fyrirtækisins og kexverksmiðjuna Frón að Tunguhálsi, Mylluna í Skeifunni, niðursuðuverksmiðjuna Ora að Vesturvör í Kópavogi og Fastus sem er í Síðumúla.
Seljandi húsnæðisins er SMI ehf. sem er að 99% hluta í eigu The Calabry Trust en 1% er í eigu Jákups Napoleon Purkhús, stofnanda Rúmfatalagersins. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Frá því var greint í Morgunblaðinu árið 2014 að fjárfestingafélagið Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, hefði fest kaup á öllu hlutafé ÍSAM. Seljendur voru fjölskylda Berts Hanson en hann stofnaði félagið 1964 eftir að hafa flutt til Íslands frá Bandaríkjunum ásamt konu sinni Ragnheiði Jónasdóttur.