Kostnaður ýmissa kosningaloforða í yfirstandandi kosningabaráttu hleypur á tugum milljarða og samanlagt gætu opinber útgjöld aukist um nærri tvö hundruð milljarða á ári ef helstu loforðin væru uppfyllt. Viðskiptaráð Íslands greinir frá þessu.
Í skoðun ráðsins kemur fram að heildarútgjöld ríkissjóðs árið 2016 nemi um 700 milljörðum króna. Hækkun af þessu tagi jafngildir því 27% aukningu í umsvifum hins opinbera á næsta kjörtímabili. „Flestum er ljóst að efnahagsleg áhrif slíkrar breytingar væru neikvæð,“ segir í skoðuninni.
Viðskiptaráð hvetur kjósendur og fjölmiðla til að rýna loforð stjórnmálaflokka með það í huga að engum sé greiði gerður með innistæðulausum eða vanhugsuðum loforðum.
Viðskiptaráð skiptir helstu loforðum kosningabaráttunnar í þrjá flokka, loforð tengd heilbrigðiskerfinu, loforð tengd lífeyrisgreiðslum og önnur loforð.
Þegar það kemur að fjármögnun heilbrigðiskerfisins hafa tvö loforð vakið mesta athygli Viðskiptaráðs. Annars vegar að 11% af landsframleiðslu verði varið til heilbrigðismála og hins vegar að skjólstæðingar kerfisins muni ekki bera beinan kostnað vegna notkunar þess. „Til að uppfylla þessi tvö loforð þyrfti framlag hins opinbera til heilbrigðismála að hækka úr um 7% í 11% af landsframleiðslu,“ segir í skoðun ráðsins.
Bent er á að í dag ráðstafi hið opinbera um 165 milljörðum króna til heilbrigðismála. Afnám kostnaðarþátttöku sjúklinga myndi hækka þessa upphæð um ríflega 37 milljarða króna. Þá er ekki tekið tillit til eftirspurnaráhrifa slíkrar breytingar.
Aukning heildarútgjalda til heilbrigðismála í 11% af landsframleiðslu myndi hækka fjárhæðina um tæplega 60 milljarða króna til viðbótar. Varlega áætlað þyrfti hið opinbera því að leggja tæplega 100 milljarða til viðbótar í málaflokkinn til að uppfylla bæði loforðin. „Til að setja þetta í samhengi, er samanlagt framlag ríkisins til framhaldsskóla, háskóla, samgöngumála og löggæslu samsvarandi upphæð,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.
Jafnframt er bent á að við samanburð á fjárhæðum til kerfisins milli landa er mikilvægt að taka tillit til aldurssamsetningar og annarra lýðheilsuþátta í fari þjóða. „Íslendingar eru ung og heilbrigð þjóð sem hefur áhrif á þarfir okkar fyrir heilbrigðistengda þjónustu. Ef eingöngu er leiðrétt fyrir aldurssamsetningu má sjá að framlag hins opinbera er nú þegar með því hæsta á Norðurlöndum.“
Þá segir jafnframt að íslenskt heilbrigðiskerfi standi mun betur en ætla mætti af umræðunni og að framlög til heilbrigðismála hafi aukist umtalsvert á undanförnum árum.
Þá hafa ýmsir lagt fram hækkun lágmarksgreiðslna vegna elli- og örorkulífeyris í 300.000 krónur á mánuði. Bent er á að á síðustu dögum þingsins hafi stjórnvöld gert breytingar á almannatryggingakerfinu en í þeim felst að lágmarksbætur einstæðra lífeyrisþega (þ.e. að meðtalinni heimilisuppbót) nái 300.000 krónum á mánuði í upphafi árs 2018. Þá verða lágmarksgreiðslur einstaklinga í sambúð tæplega 230.000 krónur frá næstu áramótum samkvæmt frumvarpinu. Áætlaður árlegur kostnaður af breytingunum nemur 11 milljörðum króna.
Ef loforð annarra flokka felst í því að aldraðir og öryrkjar fá að lágmarki 300.000 krónur þá er kostnaðurinn umtalsvert meiri en nýleg breyting felur í sér. Til að svo yrði þyrftu lágmarksgreiðslur að hækka um 23% til viðbótar. Án tillits til fjölgunar örorku- og ellilífeyrisþega myndi slík breyting fela í sér kostnaðarauka sem nemur ríflega 25 milljörðum króna.
„Til að koma í veg fyrir misskilning þurfa stjórnmálaflokkar því að kynna útfærslur sínar nánar. Öðruvísi verður ekki unnt að meta væntar breytingar á upplýstum grunni,“ segir í skoðun ráðsins en það má sjá í heild sinni hér.