Glundroði gulli sleginn: Saga FIH-bankans

Nýjar höfuðstöðvar voru reistar yfir FIH-bankann í Kaupmannahöfn árið 2002. …
Nýjar höfuðstöðvar voru reistar yfir FIH-bankann í Kaupmannahöfn árið 2002. Byggingin var hönnuð af arkitektastofunni 3XN. Ljósmynd/Adam Mørk

Upplýsingaleki úr danska stjórnkerfinu leiddi til þess að áhrifamenn í dönsku viðskiptalífi vissu að dönsk stjórnvöld hugðust þvinga Seðlabanka Íslands til að selja FIH-bankann. Þær upplýsingar hagnýttu hinir veltengdu fjárfestar sér og fengu bankann á gjafverði. Í söluferlinu virðist sem veik samningsstaða hafi leitt til afleiks af hálfu Seðlabankans. Það varð til þess að tugmilljarða kostnaður féll á íslenska skattgreiðendur. Upplýsingar sem birtar hafa verið í danska viðskiptablaðinu Finans upp á síðkastið varpa frekara ljósi á atburðarásina.

Þann 19. september 2010 tilkynnti Seðlabanki Íslands að samkomulag hefði náðst við danska og sænska fjárfesta um að þeir keyptu 99,89% hlut í danska FIH-bankanum fyrir samtals 5 milljarða danskra króna. Á þeim tíma hélt Seðlabanki Íslands á 99,89% allsherjarveði í bankanum. Var það komið til vegna láns sem Seðlabankinn hafði veitt Kaupþingi, eiganda FIH-bankans, til þrautavara þann 6. október 2008. Var það hluti af lokatilraun íslenskra stjórnvalda til að halda bankanum á floti þegar lausafjárþurrð var orðin gríðarleg á alþjóðlegum fjármálamarkaði og lánalínur lokuðust hver af annarri. Lánið hafði hljóðað upp á 500 milljónir evra eða sem jafngildir 69 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi gjaldmiðlanna tveggja. Söluverð bankans í viðskiptunum í september 2010 var að fjárhæð 93 milljarðar íslenskra króna (670 milljónir evra) á núverandi gengi. Á þeim tíma var gengi íslensku krónunnar að vísu veikara og í fyrrnefndri tilkynningu Seðlabankans kom fram að söluverðið næmi um 103 milljörðum íslenskra króna eða 670 milljónum evra.

Allt benti því til að samningurinn um sölu bankans myndi tryggja að allsherjarveðið í FIH-bankanum hefði tryggt íslenska seðlabankanum, og þar með íslenskum skattgreiðendum, fullar endurheimtur af þrautavaraláninu sem veitt var í byrjun október, tveimur árum fyrr. Ekki er að fullu ljóst hvað Seðalbankinn mun bera úr bítum vegna sölunnar. Í svari frá bankanum til ViðskiptaMoggans segir einfaldlega: „Málinu er ekki alveg lokið og því liggur endanleg niðurstaða ekki fyrir, en það var komið eitthvað meira en þessir 1,9 milljarðar.“ Samkvæmt heimildum mun bankinn ekki fá meira en 100 milljónir danskra króna til viðbótar og jafngildir greiðslan til bankans þá rúmum 37 milljörðum króna. Því mun tæpur helmingur fyrrnefnds þrautavaraláns til Kaupþings hafa glatast. Eðlilegt er að spurt sé hvernig þetta hafi getað gerst, ekki síst þegar núverandi eigendur bankans standa nú uppi með pálmann í höndunum örfáum árum eftir að hann hrökk úr höndum Seðlabankans. Tveir stjórnendur bankans, sem unnu í umboði þáverandi eigenda þegar hann var seldur, munu hvor um sig hagnast um ríflega 686 milljónir króna fyrir árslok, gangi áætlanir þeirra eftir. Það þýðir að fjárfesting þeirra frá árinu 2011 hefur fimmfaldast á sex árum. Fjárfesting lífeyrissjóðanna og þeirra fjárfesta sem komu að bankanum sama ár mun þá hafa þrefaldast.

Ný röð fréttaskýringa í danska viðskiptablaðinu Finans, sem unnar eru af blaðamanninum Jakob Martini varpar ákveðnu ljósi á málið og vekur sömuleiðis upp áleitnar spurningar. Fréttaskýringar hans eru birtar undir heitinu „Glundroði gulli sleginn: Saga FIH-bankans.“

Bankinn, sem Seðlabanki Íslands tapaði milljarðatugum á, mun undir lok þessa árs skila þeim sem keyptu bankann árið 2010 hátt í 80 milljarða króna hagnaði. Í fyrrnefndum fréttaskýringum er ljósi varpað á hvernig háttsettir aðilar í stjórnkerfi Danmerkur, þar á meðal núverandi seðlabankastjóri landsins, tóku þátt í að þvinga bankann úr höndum Seðlabanka Íslands undir lok árs 2010. Þar var ýmsum brögðum beitt og þrýstingur úr æðstu stöðum danska ríkisins settur á stjórnendur Seðlabanka Íslands í þeirri viðleitni að tryggja yfirráð yfir hinum gríðarlegu verðmætum sem í bankanum leyndust.

Fengu sjálfdæmi um endurgjaldið

Samningurinn sem náðist um söluna á bankanum í árslok 2010 byggði á því að nýir eigendur reiddu fram 1,9 milljarða danskra króna en að fyrir það sem eftir stóð af milljörðunum fimm sem verðmiðinn hljóðaði upp á fengi fjárfestahópurinn sem seljendalán. Lán þetta átti svo að taka breytingum eftir því hvernig tilteknar eignir í safni FIH myndu þróast. Þannig segir í tilkynningu Seðlabankans um málið: „[lánsupphæðin]... verður leiðrétt með tilliti til þess taps sem FIH verður fyrir vegna eigna á efnahagsreikningnum þann 30. júní 2010 þar til 31. desember 2014 auk þess sem mögulegur hagnaður FIH af Axcel III sjóði kemur til hækkunar. Ennfremur verður til greiðslu fjárhæð sem tengd verður afkomu fjárfestahópsins af þessari fjárfestingu til 31. desember 2015.“

Af yfirlýsingu Seðlabankans að dæma virðist hafa verið gengið út frá því að bankinn myndi taka á sig tap á árabilinu 2010 til 2014. Það varð og reyndin. Þegar hinir nýju eigendur höfðu tekið við bankanum og tvinnað hagsmuni sína saman við hagsmuni stjórnenda bankans, tóku þeir til við að færa gríðarlegar upphæðir til afskrifta sem komu fram sem tap í bókum bankans. Á sama tíma hélt bankinn áfram að innheimta vexti á hinum niðurfærðu lánum. Jakob Martini fullyrðir eftirfarandi á grundvelli rannsóknar sinnar á málinu: „Hið sniðuga var að Íslendingarnir fengu ekki hlutdeild í vöxtunum sem FIH innheimti af hinum niðurfærðu lánum.“ Með öðrum orðum tókst hinum nýju eigendum að afskrifa lán en hafa af þeim tekjur um leið. Þannig drógu þeir ekki úr tekjum bankans en náðu þó að koma í veg fyrir að þeir þyrftu að greiða 62% af upprunalegu kaupverði bankans. Ekkert kemur fram í tilkynningu Seðlabankans frá árinu 2010 sem bendir til þess að bankinn hafi getað haft yfirsýn eða áhrif á með hvaða hætti farið var að afskriftum á eignum bankans.

Stjórnkerfið í Danmörku lagðist á árarnar

Frá árslokum 2008 var FIH-bankinn með einu eða öðru móti í höndum íslenska Seðlabankans þar sem hann hafði tekið allsherjarveð í bankanum. Fram hefur komið opinberlega að þegar veðið var tekið ráðfærði Seðlabankinn sig við Seðlabanka Danmerkur sem aftur leitaði álits danska fjármálaeftirlitsins á veðhæfi bankans. Var það talið traust og að minnsta kosti virði eins milljarðs evra – en það er tvöföld upphæð lánsins sem veitt var. Á hinn bóginnvirðast dönsk stjórnvöld hafa ókyrrst og lagt þunga áherslu á að FIH kæmist aftur í eigu danskra aðila. Inntur eftir ástæðum þess að Seðlabankinn ákvað að sleppa hendinni af bankanum haustið 2010, sagði Már Guðmundsson í samtali við Morgunblaðið þann 23. apríl 2015 að það hafi í raun ekki komið til af góðu og að það hafi verið óheppileg staða að eiga veð í banka erlendis. „Dönsk stjórnvöld beittu sér mikið í þessu máli, sem gerði það að verkum að kostirnir í stöðunni voru ekki mjög margir.“

Sömu skýringu hefur Jakob Martini þegar hann leitar skýringa á því af hverju danskir lífeyrissjóðir leituðust eftir því að eignast banka sem í raun var í bakkgír á þeim tíma. „Það voru kraftar úr efstu lögum stjórnmálanna sem mjög vildu fá bankann aftur í danskar hendur,“ segir í fréttaskýringu Finans. Vísar blaðamaðurinn þar meðal annars til Kristjánsborgarhallar, en þar er aðsetur danska þingsins, skrifstofur forsætisráðherrans og Hæstaréttar. Þá má heldur ekki gleyma því að fjárfestahópurinn sem hreppti bankann var ekki einn um hituna. Annar hópur fjárfesta, sem einnig samanstóð af dönskum lífeyrissjóðum, reyndi að komast yfir bankann á sama tíma. Þar voru á ferðinni sjóðirnir Sampension, PKA, PensionDanmark, Industriens Pension, AP Pension og Triton.

Leita má ýmissa skýringa á því af hverju dönsk stjórnvöld sóttu fast að eignarhaldið á bankanum flyttist „heim“ en ætla má að sú aðstoð sem bankinn fékk á árunum fyrir 2010 frá dönskum skattgreiðendum hafi þar haft sín áhrif. Þannig hafði bankinn þegið aðstoð á grundvelli aðgerða sem fólu í sér stuðning danskra stjórnvalda við banka þar í landi í október 2008. Þá hafði bankinn einnig fengið víkjandi lán frá ríkinu þann 30. júní 2009 að upphæð 1,9 milljarðar danskra króna og þremur dögum síðar ábyrgðist ríkið skuldabréfaútgáfu bankans að upphæð 50 milljarðar danskra króna. En stjórnvöld í Danmörku máttu þó einnig gera sér ljóst að þó eignarhaldið færðist frá Íslendingum og yfir á danskar hendur þá átti enn eftir að vinna mikla vinnu við að bjarga þeim miklu verðmætum sem í bankanum fólust. Það varð enda raunin og FIH fékk að nýju stuðning frá danska ríkinu árið 2012. Í þeim aðgerðum losnaði bankinn undan fasteignalánapakka að upphæð 17 milljarða danskra króna sem skilgreind voru sem vandræðalán.

Allir græddu á sölunni nema íslenska ríkið

Það var í kjölfar slíkra vendinga og annarra sem í kjölfarið fylgdu sem viðskiptalífið áttaði sig á hvert planið var hjá eigendum og stjórnendum bankans. Um það segir Jakob Martini: „Í augum þeirra sem fyrir utan stóðu var það lengi ráðgáta hvað snjallir fjármálamenn á boð við Christian Dyvig, PFA-stjórann Henrik Heideby og þáverandi ATP-stjórann Lars Rohde vildu með FIH-bankann gera. En þann 21. maí 2014 sendi FIH frá sér kauphallartilkynningu sem rataði í fyrirsagnir viðskiptamiðlanna.“ Þar var tilkynnt að Spar Nord hefði keypt tvo þriðju viðskiptakrafna FIH og hefði auk þess greitt fyrir svokallaða viðskiptavild. Upphæðirnar sem um var að tefla, og viðskiptin sem slík, opnuðu augu margra fyrir því að FIH gæti í raun verið gullnáma fyrir eigendurna. Þeir höfðu unnið eftir plani B sem fólst í að „slátra“ bankanum eins og danskir fjölmiðlar kalla það, brjóta hann niður í smærri einingar og hirða upplausnarvirðið.

Sé litið til þess hvernig mál FIH-bankans hafa þróast, þar sem sífellt hefur hallað á ógæfuhliðina fyrir Seðlabankann en núverandi eigendur og stjórnendur bankans hafa matað krókinn um 37 milljónir íslenskra króna hvern dag sem hann hefur verið í þeirra eigu, hljóta fjölmiðlar og stjórnvöld að kalla eftir skýringum Seðlabanka Íslands á því af hverju bankinn stóð með þeim hætti sem raun varð á að sölunni. Í fyrrnefndri yfirlýsingu Seðlabankans frá 19. september, þegar tilkynnt var um söluna, sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að niðurstaða samninganna væri „ágæt miðað við aðstæður“. Í samtali við ViðskiptaMoggann segir Jakob Martini að íslenska ríkið sitji uppi með Svarta-Pétur í málinu. „Það græddu allir á sölu FIH-bankans árið 2010 nema einn aðili – íslenska ríkið. Það tók tapið en fékk ekki hlutdeild í gróðanum.“

Nánara ljósi verður eflaust varpað á málið allt í skýrslu Seðlabankans sem Már hefur sagt að sé í smíðum. Í samtali við Morgunblaðið í maí 2015 sagði hann að hún yrði birt í fyrsta lagi haustið 2015. Enn bólar ekkert á henni en reynslan kennir að eftir því sem tímanum vindur fram hlýtur að styttast í birtingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK