Vísbendingar um aukinn ójöfnuð

Samanburður ASÍ sýnir að skiptingin árið 2015 er örlítið jafnari …
Samanburður ASÍ sýnir að skiptingin árið 2015 er örlítið jafnari en árið 2007 en talsvert ójafnari en fyrir tæpum 20 árum síðan. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vísbendingar eru uppi um að tekjudreifing hér á landi sé að þróast í átt að auknum ójöfnuði. Á síðasta ári átti efnamesta 10% þjóðarinnar 64% af öllu eigið fé í landinu en 90% þjóðarinnar skipti með sér þeim 36% sem eftir voru.

Ójöfnuður hér á landi náði hámarki árið 2007 þegar 10% þjóðarinnar var með 44% allra ráðstöfunartekna.

Þetta kemur fram í hagspá ASÍ fyrir árin 2016-2018 sem kynnt var í gær.

Farið lækkandi frá hruni

Ójöfnuður mældur með Gini-stuðli jókst á árunum fyrir hrun og náði sínu hæsta gildi árið 2009, þegar hann mældist 29,6. Gini-stuðullinn sýnir hvernig heildartekjur samfélags dreifast meðal landsmanna og er á bilinu 0-100. Ef stuðullinn mælist 100 fær einn aðili allar tekjur landsins og ef hann mælist 0 hafa allir jafn miklar tekjur.

Ójöfnuður fór vaxandi á árunum fyrir hrun og varð mestur, samkvæmt Ginistuðlinum,á tekjuárinu 2008. Síðan þá hefur stuðullinn farið lækkandi og mældist síðast 22,7 vegna tekna ársins 2013.

Ójöfnuður telst lítill hér á landi í alþjóðlegum samanburði og dróst saman á árunum eftir hrun sem skýrist meðal annars af miklum samdrætti eignatekna, skattbreytingum og tekjutilfærslum. Ekki liggja fyrir útreikningar Hagstofunnar á Gini-stuðli vegna tekna ársins 2015 en hins vegar gefa nýleg gögn Hagstofunnar um tekju- og eignaþróun einstaklinga vísbendingar um að tekjudreifingin sé að þróast í átt að auknum ójöfnuði.

Aukinn ójöfnuður með bættu árferði?

Árið 1997 voru efstu tvær tíundir landsmanna með samtals 44% ráðstöfunartekna og neðstu tvær tíundirnar með 4,1%. Árið 2007 er síðan tekjuhæstu 20% þjóðarinnar komin með samtals 58% ráðstöfunartekna en hlutur þeirra 20% tekjulægstu hafði dregist saman og var ekki nema 2,8% allra ráðstöfunartekna. Bilið milli tekjuhópa jókst því verulega á þessu 10 ára tímabili. Lægsti tekjufimmtungur landsins fór frá því að vera með 9,2% af ráðstöfunartekjum, hæsta tekjufimmtungs niður í ekki nema 4,7%.

Þessi þróun snerist aðeins við eftir hrun, aðallega sökum þess að tekjuhærri einstaklingar lækkuðu hlutfallslega meira í tekjum í kreppunni.

Hlutdeild lægsta tekjufimmtungsins í ráðstöfunartekjum landsmanna hækkaði, þó einungis upp í 3,3% af heildar ráðstöfunartekjum árið 2012, en hefur síðan þá farið lækkandi á ný. Á sama tíma lækkaði hlutdeild efsta tekjufimmtungs niður í 47,4% af heildar ráðstöfunartekjum árið 2012 en hefur síðan þá farið hækkandi.

Samanburður ASÍ sýnir að skiptingin árið 2015 er örlítið jafnari en árið 2007 en talsvert ójafnari en fyrir tæpum 20 árum síðan. Efstu tvær tíundirnar höfðu samtals 49,2% ráðstöfunartekna sem er svipað hlutfall og árið 2003 þegar hlutur efsta fimmtungsins var á hraðri uppleið. Þróunin síðustu þrjú ár er mjög áþekk því sem sást á árunum 2001-2003 hvað varðar hlutdeild efsta og neðsta tekjufimmtungs í heildar ráðstöfunartekjum landsmanna. Mynd ASÍ hér að neðan sem sýnir samanburð á þróun hlutdeildar neðsta og efsta tekjufimmtungs í heildar ráðstöfunartekjum þjóðarinnar sýnir hvernig einstaklingar í neðsta fimmtungi fá sífellt lægra hlutfall ráðstöfunartekna, sérstaklega á uppsveifluárunum, á meðan að efsti tekjufimmtungurinn tekur til sín sífellt stærra hlutfall.

„Þetta gefur okkur vísbendingu um að með bættu árferði aukist ójöfnuður á ný,“ segir í spá ASÍ. 

Myndin sýnir hvernig einstaklingar í neðsta fimmtungi fá sífellt lægra …
Myndin sýnir hvernig einstaklingar í neðsta fimmtungi fá sífellt lægra hlutfall ráðstöfunartekna, sérstaklega á uppsveifluárunum, á meðan að efsti tekjufimmtungurinn tekur til sín sífellt stærra hlutfall.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK