Krónan er allt að 10% sterkari en staðist getur til lengri tíma en hún hefur styrkst um 15% á árinu, einkum í síðustu viku. Uppi eru sterkar vísbendingar um að krónan muni styrkjast áfram á næstu mánuðum, sem mun að öllum líkindum grafa undan gengi hennar síðar.
Þetta kom fram í erindi Konráðs S. Guðjónssonar, Hversu sterk getur krónan orðið?, á morgunfundi greiningardeildar Arion banka í morgun.
Í erindi sínu benti Konráð á að krónan hefði styrkst um 13% síðan að greiningardeildin birti sína síðustu hagspá 15. mars síðastliðinn. Sagði Konráð mest muna um breska pundið sem hefur fallið mikið síðan Bretar ákváðu að ganga úr Evrópusambandinu en þá hefur krónan einnig styrkst gagnvart gjaldmiðlum eins og norsku krónunni, evrunni og Bandaríkjadal.
Ef litið er á hvað krónan kostar í erlendri mynt má sjá mikinn mun milli ára en til að mynda hefur hver þúsundkall sem Breti eyðir hér á landi hækkað um 40% í verði, úr fimm pundum í sjö. „Breti sem kemur hingað núna þarf að borga 40% meira fyrir bjór á barnum heldur en rétt fyrir áramót,“ sagði Konráð.
Benti hann á að þróunin síðustu misseri hefði verið krónunni hagstæð. „Við erum með fordæmalausa erlenda skuldastöðu. Við þurfum að fara aftur til seinni heimsstyrjaldar til að finna jafn góða stöðu erlenda þjóðarbúsins miðað við útlönd,“ sagði Konráð og bætti við að Íslendingar væru að horfa á mjög góðar efnahagshorfur miðað við önnur þróuð ríki og að fjármagn ætti að rata hingað frekar en áður.
Framleiðni vinnuafls hér vex á svipuðum hraða og í öðrum OECD-ríkjum en hún vex þó hraðar en í okkar helstu viðskiptalöndum sem ýtir undir raungengisstyrkingu.
Þá er vaxtamunurinn við útlönd enn mikill og hefur lítið breyst. Sagði Konráð það skipta máli til skemmri tíma að vaxtamunurinn væri stöðugur. Hann er ekki jafn mikill og rétt fyrir efnahagshrunið 2008 en talsverður.
Benti Konráð á að þá hefði allt fjármagnið styrkt krónuna en svo gat hagkerfið ekki staðið undir vöxtunum. Þar af leiðandi setti Seðlabankinn bindisskyldu á fjármagn til kaupa skuldabréfa og það hefur hægt á því innflæði. Þá er það vaxtamunurinn heldur fjármagni á Íslandi.
Sagði Konráð það erfitt að neyða fjármagn úr landi en þrátt fyrir það væri kominn tími fyrir Íslendinga til þess að fjárfesta erlendis eins og staðan er núna.
Konráð bar saman verðlag neysluvara hér og í Evrópu og benti á að verðlag hér á landi væri 7% lægra en í Sviss sem er dýrasta land í heimi miðað við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Benti hann á að á mjög skömmum tíma hefði Ísland orðið dýrara en Noregur og þyrfti ekki nema 7% gengisstyrkingu til þess að ná sama verðstigi og er í Sviss. „Þetta ætti að hringja viðvörunarbjöllum,“ sagði Konráð.
Sýndi hann að raungengi krónunnar miðað við laun væri 34% yfir langtímameðaltali og 20% yfir langtímameðaltali miðað við verðlag. Greiningardeildin spáir því að raungengi krónunnar muni hækka meira og verða 22% yfir meðaltali miðað við verðlag og 44% yfir meðaltali miðað við laun undir lok árs 2019.
„Ræður hagkerfið við þetta gengi?“ spurði Konráð.
Sagði Konráð mikilvægt að átta sig á því hversu sterkt gengið gæti verið án þess að það græfi undan sjálfu sér og leiddi til gengisveikingar síðar. Vitnaði hann í Peningamál Seðlabankans síðan í maí þar sem fram kom að krónan væri 8% of sterk sem og skoðun á þjóðhagslegu jafnvægi sem sýnir að krónan sé allt að 8% sterkari en ætla að má sé sjálfbært. Þá er jafnvægisraungengið sem byggist á framleiðniþróun, viðskiptakjörum, innlendri neyslu og erlendri stöðu þjóðarbúsins 10% of hátt.
Konráð sagði að til skemmri tíma gæti krónan haldið áfram að styrkjast og bendir margt til þess. Efnahagshorfur eru enn góðar og margt bendir til þess að gjaldmiðillinn haldi áfram að styrkjast.
Þó eru stórir óvissuþættir og nefndi Konráð væntingar um efnahagsþróun, flæði vegna fjárfestinga og ýmsar skammtímasveiflur í því samhengi og sagði það ráða miklu.
Þá er óvissa um jafnvægisraungengi, og þ.a.l. sjálfbært gengi, sem breytist með tíð og tíma. Jafnframt er ekki vitað hvernig undanfarin gengisstyrking mun hafa áhrif á ferðaþjónustuna og þá hefur Seðlabankinn ekki upplýst hvernig hann mun hegða gjaldeyrisinngripum á næstu misserum .
Einnig á eftir að koma í ljós hver áhrif losunar hafta verða og hversu mikið þau verða losuð. Er það mat deildarinnar að mikil styrking í viðbót mun að öllum líkindum leiða til þess að krónan gefur eftir síðar. „Krónan er þegar orðin of sterk miðað við undirliggjandi þætti,“ benti Konráð á og sagði það geta aukið skuldsetningu og haft neikvæð áhrif á útflutning. „Þetta getur gerst nokkuð hratt og sést margoft í íslenskri hagsögu,“ sagði Konráð en bætti við að ef krónan styrkist ekki mikið meira gætum við sloppið fyrir horn.