Hafnarfjarðarbær hefur síðustu mánuði farið markvisst yfir innkaupaferla og útboðsskilmála með það fyrir augum að vernda þá sem eru í viðkvæmri stöðu gagnvart mansali. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Hafnarfjarðar í vikunni var samþykkt nýtt ákvæði um mansal í útboðsskilmála bæjarins.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnafjarðarbæ.
Nýju ákvæði um mansal verður bætt við alla útboðsskilmála Hafnarfjarðarbæjar og vill sveitarfélagið með þessu leggja sitt af mörkum við afnám mansals á Íslandi. Samhliða hefur hluti starfsfólks og eftirlitsaðilar á vegum bæjarins fengið fræðslu um hvernig bera megi kennsl á mansal og mun sú fræðsla halda áfram næstu mánuði. Fulltrúar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru með fræðslu fyrir stóran hóp af starfsfólki í vor og verða með kynningu fyrir alla stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar um miðjan nóvember.
Ný samþykkt felur í sér að með undirritun tilboða lýsir bjóðandi því yfir að hann muni tryggja að allir starfsmenn sem komi að verki, hvort sem er starfsmenn bjóðanda eða undirverktaka, fái laun og starfskjör í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni og aðstæður þeirra séu í samræmi við löggjöf á sviði vinnuverndar. Jafnframt tryggir verktaki og ber ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við samninginn, gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Að auki ber bjóðandi ábyrgð á og skal hafa í gildi og viðhalda tryggingum fyrir tjóni vegna slysa, veikinda, sjúkdóma, sjúkrakostnaðar eða dauða sem starfsmenn verktaka verða fyrir og rekja má til framkvæmda. Bjóðandi ber ábyrgð á að undirverktakar og starfsmannaleigur og starfsmenn þeirra hafi sams konar tryggingar. Hvenær sem er á samningstíma þarf bjóðandi að geta sýnt verkkaupa fram á að öll réttindi og skyldur gagnvart þessum starfsmönnum séu uppfyllt. Bjóðandi samþykkir með undirritun að ef hann getur ekki framvísað gögnum eða sýnt eftirlitsmanni verksins fram á að samningsskyldur séu uppfylltar innan fimm daga frá því ósk um slíkt er borin fram af verkkaupa getur verkkaupi rift verksamningi án frekari fyrirvara eða ákveðið að beita dagsektum sem nemur 0,1% af samningsupphæð fyrir hvern dag sem umbeðnar upplýsingar skortir.