Íslenskum fjarskiptafyrirtækjum var þröngvað í viðskipti við einkafyrirtækið Auðkenni á sínum tíma vegna rafrænna skilríkja. Hafði það í för með sér verulegan kostnað fyrir fyrirtækin og er það fráleitt að ætlast til þess að þau beri þann kostnað sjálf. Þetta segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við mbl.is.
Rafræn skilríki hafa verið í deiglunni í gær og í dag eftir að RÚV sagði frá því að fólki þyrfti mögulega að greiða símafyrirtækjunum Nova og Vodafone 14-15 krónur fyrir hvert skipti sem rafræn skilríki væru notuð. Var sagt frá því í ljósi þess að Íslandsbanki og Arion banki muni leggja af notkun auðkennislykla um áramót og gefast viðskiptavinum þá tveir kostir til þess að komast inn á netbanka, með rafrænum skilríkjum eða gjaldfrjálsum SMS-auðkenningum.
Eins og fyrr segir sér fyrirtækið Auðkenni um útgáfu skilríkjanna en það er í eigu viðskiptabankanna þriggja og Símans.
Fyrri frétt mbl.is: Gert til að fækka reikningum
Ólafur segir að það hafi verið mjög óeðlilega staðið að innleiðingu rafrænna skilríkja hér á landi á sínum tíma. Þegar skuldaleiðréttingunni var lofað árið 2014 hafi ríkisvaldið ákveðið að enginn gæti fengið leiðréttinguna án þess að skrá sig á vef Ríkisskattstjóra með rafrænum skilríkjum. „Þá var þeim sem vildu notfæra sér leiðréttinguna smalað í viðskipti hjá þessu eina fyrirtæki. Undir gríðarlegri tímapressu var því líka nánast hótað að símafyrirtækin myndu missa sína viðskiptavini ef þau tækju ekki þátt, þannig þeim var þröngvað í viðskipti við Auðkenni líka,“ segir Ólafur.
Að sögn Ólafs þurftu t.d. bæði Nova og Vodafone að skipta um SIM-kort hjá stórum hluta viðskiptavina sinna vegna rafrænu skilríkjanna með gríðarlegum tilkostnaði. Auk þess falli til kostnaður vegna aukinnar umferðar um fjarskiptakerfin.
„Það er ekkert óeðlilegt að núna ætli símafyrirtækin að rukka sama gjald og þau taka fyrir SMS. Það að hafa afnot af þessum skilríkjum krefst afnota á kerfi fyrirtækjanna. Það er ekkert öðruvísi en gjaldtaka við margs konar aðra notkun á fjarskiptakerfum. Fjarskiptafyrirtækin eru ekki að rukka fyrir notkun skilríkjanna sem slíka.“
Ólafur skrifaði grein í Morgunblaðið í maí 2015 með athugasemdum sínum við þetta fyrirkomulag og segir hann þær athugasemdir standa enn. „Það er ekki enn búið að finna skynsamlegt framtíðarfyrirkomulag á þessu. Hvernig á að greiða fyrir þetta er ennþá óljóst,“ segir hann og bætir við að enn hafi ekkert verið gert til þess að lagfæra þær samkeppnishömlur sem fylgja rafrænu skilríkjunum eins og staðan er í dag. „Þessi skilríki gera fólki erfiðara fyrir að skipta um símafyrirtæki þar sem þá þarf að setja rafrænu skilríkin upp á nýtt.“
Ólafur segir að það væri eðlilegast að taka fjarskiptafyrirtækin úr jöfnunni og að Auðkenni myndi vera í beinu viðskiptasambandi við notendur skilríkjanna. Auðkenni hafi enn ekki byrjað að rukka notendur en hafi boðað að í framtíðinni verði fjarskiptafyrirtækin rukkuð um gjald fyrir hvern notanda. „Ef þetta á á annað borð að vera svona, að það sé einkafyrirtæki sem sér um útgáfu þessa skilríkja, er einfaldast að viðskiptasambandið sé á milli þessa fyrirtækis og handhafa skilríkjanna. Þá þurfa fjarskiptafyrirtækin ekki að vera milliliður,“ segir Ólafur og bætir við að þá gæti Auðkenni leigt pláss á SIM-kortum símafyrirtækjanna og viðskiptavinurinn fengi reikning frá Auðkenni.