Innlánsvextir meirihluta viðskiptareikninga Íslandsbanka eru að hækka um þessar mundir. Þó er ákveðinn hópur reikninga þar sem innlánsvextirnir lækka úr 2,60% í 0,80%. Skjáskot af bréfi Íslandsbanka til viðskiptavinar gekk á samfélagsmiðlum í gær þar sem vakin var athygli á þessu og gagnrýnt að innlánsvextirnir lækkuðu en útlánsvextirnir stæðu í stað.
Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir að nú sé verið að hringja í alla þá sem eigi reikninga hjá bankanum þar sem innlánsvextir lækki og standi þeim t.d. til boða að loka þeim reikningum og færa fjárhæðirnar yfir á aðra reikninga. Hún segir að lækkunin sé gerð til þess að fækka reikningum og einfalda allt vöruframboð bankans og að innlánsvextirnir lækki hjá minnihluta reikninga bankans. Reikningarnir sem um ræðir eru m.a. þeir sem hafa komið inn í bankann í kjölfar sameininga í gegnum árin.
Þá hefur ákvörðun Íslandsbanka og Arion banka um að taka auðkennislykla úr notkun um áramótin einnig vakið athygli síðustu daga. Með breyttu fyrirkomulagi geta viðskiptavinir bankanna valið um tvær leiðir til að komast inn í netbankann; að fá sent auðkennisnúmer í SMS eða notast við rafræn skilríki í farsíma.
Edda segir að Íslandsbanki hafi tilkynnt þessar breytingar með löngum fyrirvara og að þetta sé skref bankans í átt að einföldun netbankans. Í frétt RÚV kemur fram að viðskiptavinir Nova og Vodafone sem skrái sig í netbanka Íslandsbanka og Arion banka með rafrænum skilríkjum þurfi að greiða 14-15 krónur fyrir hvert skipti. Bendir Edda á að það sé ákvörðun símafyrirtækjanna, ekki bankans, og í kjölfar breytinganna muni Íslandsbanki hætta að rukka fyrir SMS með auðkennisnúmerum.
Spurð hvort viðskiptavinir bankans hafi lagt fram athugasemdir varðandi breytingarnar segir hún viðbrögðin hafa verið mjög lítil hingað til.
Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone mun fyrirtækið frá og með 1. desember rukka 15 krónur fyrir hvert SMS en aldrei meira en 150 krónur á mánuði. Þá tekur Nova gjald fyrir notkun á rafrænum skilríkjum sem nemur einu SMS-i eða 14 kr. Nova rukkar ekki fyrir skilríkin sjálf heldur eingöngu fyrir notkun þeirra á fjarskiptakerfi Nova.
Í skoðun er að bjóða upp á mánaðarlega áskrift að þjónustunni með ótakmarkaðri notkun samkvæmt upplýsingum frá Nova.