Fráfarandi ríkisstjórn samþykkti 43 lagafrumvörp sem hafa jákvæð efnahagsleg áhrif að mati Viðskiptaráðs Íslands. Það er þá helst þau skref sem tekin voru í átt að losun hafta og afnám tolla á allar vörur nema landbúnaðarvörur og afnám vörugjalda á 630 vöruflokka.
Þá voru samþykkt ný lög um opinber fjármál sem að mati Viðskiptaráðs tryggja betur vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar sem varða rekstur opinberra aðila og öflun og meðferð opinberra fjármuna.
Rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja voru einnig bætt og rannsóknar- og þróunarstarfsemi á Íslandi var gerð samkeppnishæfari með hærra endurgreiðsluþaki, skattalegir hvatar fyrir erlenda sérfræðinga voru innleiddir og rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja bætt til muna.
Þá voru margar jákvæðar umbætur á stofnanaumhverfinu framkvæmdar á kjörtímabilinu. Sýslumannsembættum var fækkað úr 24 í 9, lögregluembættum var fækkað úr 15 í 8, millidómstigi var komið á, samkeppnis- og einokunarrekstur OR var aðskilinn og tvær menntastofnanir voru sameinaðar í Menntamálastofnun. Þessar breytingar eru meðal þeirra sem eru til þess fallnar að gera opinbera þjónustu betri og skilvirkari að mati Viðskiptaráðs.
Ályktun Viðskiptaráðs Íslands í heild.
Viðskiptaráð telur þó að ríkisstjórnin hafi einnig samþykkt 29 lagafrumvörp sem hafa neikvæð efnahagsleg áhrif. Flest þeirra voru þó frekar veigalítil og er það mat ráðsins að ríkisstjórnin hafi haft jákvæð efnahagsleg áhrif á heildina litið.
Viðskiptaráð telur m.a. leiðréttinguna, hækkun húsaleigubóta, byggingu leiguíbúða af hálfu hins opinbera og nýtt stuðningskerfi vegna kaupa á fyrstu fasteign fela í sér afturför í efnahagsmálum.
„Við lögðumst gegn öllum þessum frumvörpum sem fela í sér stóraukin útgjöld hins opinbera á húsnæðismarkað fyrir lítinn ávinning vegna áhrifa til aukinnar skattheimtu og hækkunar íbúðaverðs,“ segir í ályktun ráðsins.
Þá lítur Viðskiptaráð svo á að búvörusamningarnir festi landbúnaðakerfið í fjötra „sem á endanum skerðir lífskjör almennings, bæði með hárri skattheimtu og háu matvælaverði, og viðheldur lágri framleiðni í landbúnaði“.
Segir Viðskiptaráð kerfið mislukkað og með því að festa það í sessi næsta áratuginn hafi stjórnvöld farið illa með gott tækifæri til að bæta umhverfi greinarinnar með aukið frelsi og samkeppni að leiðarljósi.
Þá er það mat ráðsins að regluverk hafi verið flækt á kjörtímabilinu og bent er á að samþykkt hafi verið 19 lagafrumvörp sem juku byrði vegna regluverks á móti 12 sem einfölduðu regluverk.
„Í heild juku þessi lagafrumvörp reglubyrði íslensks atvinnulífs. Þetta er óheppilegt í ljósi þess að íþyngjandi regluverk bitnar fyrst og fremst á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem eru nauðsynleg fyrir áframhaldandi vöxt atvinnulífsins,“ segir í ályktun Viðskiptaráðs.
Þá er það mat Viðskiptaráðs að ráðherrar fráfarandi ríkisstjórnar hafi staðið sig misvel í að vinna að hagsmunum atvinnulífsins. „Fjármála- og efnahagsráðherra ber þar höfuð og herðar yfir aðra,“ segir í ályktuninni en jákvæð áhrif af þeim stjórnarfrumvörpum sem flutt voru af ráðherranum voru þannig jöfn heildaráhrifum allrar ríkisstjórnarinnar.
Aðrir ráðherrar sem höfðu jákvæð áhrif á kjörtímabilinu voru innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og utanríkisráðherra. Neikvæðustu áhrifin voru hins vegar af frumvörpum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra, en þar vógu húsnæðismálin þyngst.
Þó er sá fyrirvari gerður að málaflokkar ráðuneytanna snerta atvinnulífið í misjafnlega miklum mæli. Hinsvegar samþykkir ríkisstjórnin öll stjórnarfrumvörp í sameiningu áður en þau eru lögð fram af einstökum ráðherrum. „Því er ekki hægt að líta á þessa skiptingu sem heildardóm yfir frammistöðu eða afköstum einstakra ráðherra. Hún gefur hins vegar vísbendingu um árangur ráðherranna þegar kemur að breytingum sem hafa efnahagsleg áhrif,“ segir í ályktun Viðskiptaráðs.
Er það mat Viðskiptaráðs að ný ríkisstjórn eigi að gera hagstætt rekstrarumhverfi fyrirtækja að forgangsmáli sínu. Með því að styðja við þá sem skapa ný verðmæti skapast svigrúm til að fjármagna öflugt velferðarkerfi á sama tíma og lífskjör batna.
„Við hvetjum nýja ríkisstjórn til að klára þær jákvæðu breytingatillögur sem ekki náðu fram að ganga á síðasta kjörtímabili. Jafnframt ætti að endurskoða nálgun stjórnvalda í húsnæðis-, landbúnaðar og regluverksmálum. Þannig væri áfram stuðlað að aukinni samkeppnishæfni Íslands, efnahagslegum stöðugleika og hagfelldu rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Slíkar aðgerðir munu best tryggja batnandi lífskjör einstaklinga,“ segir í ályktun ráðsins en í lok næsta kjörtímabils mun það gera úttekt á lagabreytingum stjórnvalda með sama hætti og leggja mat á það hvernig þau stóðu sig í efnahagsmálum.